Yfirskattanefnd hnekkti nýlega niðurstöðu nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Hafði sú síðarnefnda hafnað endurgreiðslu á auglýsingarkostnaði vegna útgáfu þriggja hljóðbóka á þeim forsendum að slíkur kostnaður væri ekki endurgreiðsluhæfur, þar sem þær væru einungis aðgengilegar með áskrift að efnisveitu útgefandans.

Yfirskattanefnd taldi að lögin, sem endurgreiðslan byggðist á, tækju jöfnum höndum til útgáfu prentaðra og rafrænna bóka á íslensku sem og hljóðupptöku af lestri slíkra bóka. Engin gögn bentu til þess að mismunandi ætti að fara með endurgreiðslu auglýsingakostnaðar bókaútgefenda eftir því hvernig aðgengi neytenda að bók væri háttað, það er hvort hún væri til sölu, láns eða leigu.

Féllst yfirskattanefnd á að úrskurði nefndarinnar skyldi hnekkt og málið sent nefndinni til meðferðar og nýrrar ákvörðunar.