Meira en 18.000 nýir hlut­hafar bættust við eftir Ís­lands­bankaút­boðið – stærsta al­menna hluta­fjárút­boð Ís­lands­sögunnar leiðir til 63% fjölgunar einstaklinga sem eiga hlutabréf skráð á Nasdaq Iceland hlutabréfamarkaðnum.

Al­mennt hluta­fjárút­boð ríkisins í Ís­lands­banka, sem lauk nýverið með þátt­töku 31 þúsunda fjár­festa, gæti því stuðlað að aukinni þátttöku einstaklinga á hlutabréfamarkaðnum.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá verðbréfa­miðstöð Nas­daq hefur fjöldi ein­stak­linga sem eiga hluta­bréf í skráðum félögum á Ís­landi nú farið úr tæp­lega 29.000 í rúm­lega 47.300, sem sam­svarar 63 pró­senta fjölgun á aðeins nokkrum dögum.

Upp­boðið, sem var það stærsta í sögu al­mennra út­boða hér á landi, vakti mikla at­hygli meðal al­mennings og leiddi til þess að fjölmargir ein­staklingar tóku þátt í hluta­bréfa­við­skiptum í fyrsta sinn.

Alls voru af­hent bréf til 31.000 þátt­tak­enda og af­greiddi Nas­daq verðbréfa­miðstöð um 70.000 fram­sals­fyrir­mæli í tengslum við við­skiptin.

Nasdaq segir að slíkt um­fang hafi ekki sést áður og hafi kallað á vandaðan undir­búning og náið sam­starf við fjár­mála­fyrir­tækin sem komu að fram­kvæmdinni.

„Upp­gjörið á þessu sögu­lega út­boði gekk virki­lega vel fyrir sig þökk sé góðum undir­búningi og sam­starfi við starfs­fólk fjár­mála­fyrir­tækja sem tók þátt í fram­kvæmdinni,“ segir í til­kynningu frá Nas­daq verðbréfa­miðstöð.

Þar hafi verið lögð áhersla á að af­henda hluta­bréfa til tugþúsunda ein­stak­linga á réttum tíma en það sé bæði viðkvæmt og mikilvægt verk­efni fyrir trúverðug­leika markaðarins.

Þótt út­boð Ís­lands­banka árið 2021 og fleiri frumút­boð í kjölfarið – til að mynda Síldar­vinnslan, Play, Solid Clouds, Öl­gerðin, Nova og Hampiðjan – hafi ýtt undir þátt­töku al­mennra fjár­festa hefur fjöldi þeirra staðið í stað síðustu tvö ár. Með nýja út­boðinu hefur sú þróun hins vegar snúist við af krafti.

Sam­bæri­leg áhrif sáust síðast árið 2020 í út­boði Icelandair, þegar fjöldi hlut­hafa í félaginu þre­faldaðist og fjöldi ein­stak­linga sem áttu hluta­bréf í skráðum félögum fór úr 9.000 í 17.000.

Sú aukning markaði ákveðinn viðsnúning, en nú er ljóst að út­boð Ís­lands­banka 2025 hefur haft enn víðtækari áhrif.

Í til­kynningu Nas­daq er lögð áhersla á mikilvægi þess að al­menningur taki virkan þátt í fjár­mála­markaði.

„Það væri jákvætt ef reynsla nýrra fjárfesta af viðskiptunum yrði þeim hvatning til að kynna sér hlutabréfamarkaðinn betur og hugsa þátttöku til lengri tíma,“ segir Nasdaq í samantekt sinni.