Fataverslunin H&M í Bretlandi hefur nú tekið upp á því að rukka viðskiptavini £1.99 fyrir að skila vörum sem keyptar voru á netinu. Kostnaðurinn er dreginn af endurgreiðsluupphæðinni en skil eru þó ókeypis fyrir meðlimi verslunarinnar.

Samkeppnisaðilar á borð við Zara, Boohoo, Uniqlo og Next rukka nú þegar svipuð verð fyrir skil á netkaupum.

Talsmaður H&M segir að breytingarnar hafi átt sér stað í sumar en netverslun jókst töluvert í heimsfaraldrinum. Það þýddi einnig að mikill fjöldi vara var sendur til baka þar sem fötin pössuðu ekki eða voru öðruvísi en viðskiptavinir bjuggust við.

Aðrar verslanir hafa einnig gefið til kynna að þær muni fylgja eftir þessu fordæmi og innlima svipuð gjöld.

Jonathan De Mello, verslunarsérfræðingur í Bretlandi, segir það athyglisvert að fyrirtæki séu farin að gera þetta með leyndu en segir jafnframt skilja ákvörðunina.

„Það er skynsamlegt að gera þetta þar sem það dregur úr líkum þess að viðskiptavinir kaupi vörur á netinu í stórum stíl og skili síðan meirihluta þeirra. Það hefur verið stórt vandamál fyrir fyrirtæki.“

De Mello segir það einnig vera betra fyrir umhverfið þar sem færri sendiferðabílar þurfi að ferðast fram og til baka með föt.

Hann varar hins vegar við því að ákvörðunin gæti farið illa í suma hópa, til að mynda fólk með fötlun sem reiðir sig mikið á netverslun.