Hollenska fyrirtækið Total Specific Solutions (TSS) hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu dk hugbúnaði ehf. Kaupverð er trúnaðarmál og félagið verður áfram rekið sem sjálfstæð eining á Íslandi, að því er segir í fréttatilkynningu um málið.

„TSS er hluti af Constellation Software Inc. sem skráð er í kanadísku kauphöllinni. dk hugbúnaður er rúmlega tuttugu ára gamalt fyrirtæki sem er leiðandi í sölu og þróun viðskiptahugbúnaðar hér á landi, með yfir 5.000 viðskiptavini og tæplega tveggja milljarða króna veltu á ári.“ Arion banki hafði umsjón með söluferlinu.

„Dk hugbúnaður er með góða fótfestu, öflugt teymi og sérlega gott orðspor á innlendum fyrirtækjamarkaði og hyggjumst við byggja á þeim góða grunni til framtíðar. Við hjá TSS bjóðum dk hugbúnað velkomin í samstæðuna,“ segir Gunnar Guðmundsson hjá TSS.

„Þegar við lítum um öxl á þessum tímamótum erum við, stofnendur dk hugbúnaðar, afskaplega stoltir af þeim árangri sem náðst hefur. Nú er að hefjast nýr og spennandi kafli í sögu félagsins og við hlökkum mikið til að vinna með TSS að áframhaldandi uppbyggingu og öfl ugri þjónustu við viðskiptavini okkar hér á landi,“ segir Dagbjartur Pálsson, forstjóri dk hugbúnaðar.

„Að loknu löngu og ítarlegu söluferli sem fjölmargir aðilar, innlendir sem erlendir, tóku þátt í, er ástæða til að óska TSS og dk hugbúnaði til hamingju með þessi viðskipti, sem eru ein stærstu fyrirtækjaviðskipti ársins hér á landi. Það er sérlega ánægjulegt að sjá erlenda fjárfestingu af þessari stærðargráðu inn í íslenskt atvinnulíf. Við höfum trú á því að dk hugbúnaður vaxi og dafni hér eftir sem hingað til með nýjum eigendum til hagsbóta fyrir hina fjölmörgu viðskiptavini félagsins,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.