Rafhlaupahjóla- og hugbúnaðarfyrirtækið Hopp ehf. hefur gengið frá 680 milljóna króna fjármögnun. Sjóðstýringarfyrirtækið Glymur, sem er í eigu Fossa fjárfestingarbanka og Guðmundar Björnssonar, og Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (Nefco) leggja Hopp til fjármagnið.

Fyrir rúmu ári síðan landaði Hopp 381 milljóna króna fjármögnun frá Brunni vaxtarsjóði II og hefur félagið því alls tryggt sér nærri 1,1 milljarða króna fjármögnun á rúmu einu ári.

Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp, segir fjármögnunina leika lykilhlutverk í að stuðla að hröðum vexti félagsins á erlendri grundu. Hún geri Hopp kleift að bjóða sérleyfishöfum upp á kaupleigu á rafhlaupahjólum félagsins. Rekstraráherslur Hopp ganga út á að selja aðgang að vörum félagsins – hugbúnað, rafhlaupahjól, vörumerki og fleira – til sérleyfishafa sem sjá svo um að leigja rafhlaupahjólin út á tilteknu svæði. 

„Með því að bjóða sérleyfishöfum upp á kaupleigu lækkar upphafskostnaður þeirra við að setja upp rafhlaupahjólaleigur umtalsvert. Þetta gerir okkur kleift að vaxa enn hraðar og síðan við hófum að bjóða upp á þennan möguleika hefur talsverður fjöldi nýrra viðskiptavina bæst við. Í dag er þjónusta Hopp í boði í nærri 30 minni borgum og bæjum víða um Evrópu. Hlaupahjólin okkar eru m.a. aðgengileg á þremur stöðum í Grikklandi, fjórum á Spáni, þremur í Noregi og einum í Svíþjóð og Færeyjum.“ Að sögn Eyþórs hefur vöxtur Hopp verið hraður á þessu ári,  en til marks um það hafi Hopp opnað á tuttugu og þremur nýjum stöðum. 

Á sama tíma hefur starfsmönnum Hopp fjölgað úr tveimur upp í þrettán. „Við erum með samning við tæplega þrjátíu félög sem reka 7.500 rafhlaupahjól og eru samtals með 120 starfsmenn. Við stefnum á að Hopp rafhlaupahjólin verði á um hundrað stöðum í lok næsta árs.“

Minni borgir og bæir 

Eyþór Máni segir Hopp leggja áherslu á að opna í minni borgum og bæjum víða um heim, sérstaklega þar sem almenningssamgöngur séu af skornum skammti, eins og í Reykjavík.

„Þar af leiðandi erum við að leysa samgönguvanda sem rafhlaupahjólaleigur í stærri borgum eru ekki að gera. Við viljum ekki opna í stórum borgum sem eru með öfluga almenningssamgangnainnviði, því þjónustan yrði vannýtt þar. Það sýnir sig m.a. í því að stórar rafhlaupahjólaleigur á borð við Bird, sem skráð er á hlutabréfamarkað í New York og einblína á stórborgir, standa mjög illa fjárhagslega. Þessi félög eru í beinni samkeppni við neðanjarðarlestir og það er óraunhæft að ætla að verða hagkvæmari en neðanjarðarlestakerfi, hvort sem það er mælt umhverfislega, fjárhagslega eða lýðfræðilega. Þetta er ástæðan fyrir því að við myndum aldrei opna í borg sem er með gott samgöngukerfi.“

Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.