Samruni Aurora Acquisition Corp., sérhæfðs yfirtökufélags (e. SPAC) Björgólfs Thors Björgólfssonar, og bandaríska húsnæðislánafyrirtækisins Better Mortgage gekk loksins í gegn fyrir tveimur vikum en meira en tvö ár liðu frá því fyrst var tilkynnt um samkomulag félaganna.

Viðskipti með hlutabréf sameinaðs félags hófust formlega fimmtudaginn 24. ágúst. Hlutabréfaverð Better lækkaði um 93% og stóð í 1,15 dölum á hlut við lokun markaða þann daginn og hefur gengi bréfanna haldið áfram að lækka síðustu daga. Gengi hlutabréfa SPAC-félagsins hafði hækkað nokkuð í aðdraganda sameiningarinnar og stóð í 17,44 dölum við lokun markaða daginn áður en viðskipti með bréf sameinaðs félags hófust. Útboðsgengið í frumútboði Aurora var 10 dalir.

Upplýsingafulltrúi Better sagði við Wall Street Journal að margir hluthafar hefðu beðið í nokkurn tíma eftir að selja bréf sín en skráningin hafði verið í undirbúningi í meira en tvö ár. „Ekkert er varðar hlutabréfaverðið endurspeglar lengri tíma horfur félagsins og þetta breytir því ekki að við erum mjög vel fjármögnuð þökk sé [SPAC] samningnum.“

Í hópi misheppnuðustu SPAC-skráninga sögunnar

Bloomberg segir skráningu Better varpa ljósi á áhættuna við að skrá ung vaxtarfélög á markað við lítið flot, þ.e. með fá bréf sem ganga kaupum og sölum í virkum viðskiptum. Viðskiptamiðillinn rekur mikla hækkun á hlutabréfum Aurora í aðdraganda samrunans til spákaupmennsku tengdri hlutabréfum með lítið flot sem hefur verið viðloðandi ákveðin SPAC-félög síðustu misseri. Dagslokagengi hlutabréfa Aurora fór hæst í 49,58 dali í lok júlí.

Samkvæmt greiningu Bloomberg kemst Better í hóp þeirra 10 fyrirtækja sem farið hafa á markað í gegnum SPAC-samruna í ár hvers hlutabréfaverð hefur lækkað mest. Alls hafa 150 slíkra fyrirtækja sem hafa orðið fyrir meira en 85% verðfalli á hlutabréfamarkaði.

Aurora, sem Björgólfur Thor gegnir stjórnarformennsku hjá, og Better tilkynntu samkomulag um SPAC-samruna í maí 2021 og var Better þá metið á 6,9 milljarða dala. Markaðsvirði félagsins er nú vel undir einum milljarði dala.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Better og Aurora í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Þar er ítarlega fjallað um fjárfestingu Novator Capital í Better.