Hugbúnaðarfyrirtækið Reon hefur keypt 70% hlut verkfræðistofunnar Mannvits í gagnavinnslufyrirtækinu Hugfimi, sem sérhæfir sig í öflun, vinnslu og framsetningu gagna og hefur undanfarin ár unnið mikið fyrir orkuvinnslufyrirtæki. Eftirstandandi 30% hlutur í félaginu verður sem áður í jafnri eigu Bjarka Ásbjarnarsonar og Helga Arnar Gylfasonar, sem stofnuðu félagið í ársbyrjun 2015 ásamt Mannviti.

Hugfimi var upphaflega stofnað í kringum þróun á eignayfirlitskerfinu EYK, sem er veflægt gagnavinnslukerfi sem auðveldar fyrirtækjum utanumhald eignasafna og greiningu gagna þeim tengdum. Í dag er félagið með starfsstöðvar í Reykjavík og á Akureyri og þróar og þjónustar EYK ásamt verktöku og ráðgjöf í gagnavinnslu.

Styrkir bæði félög

Elvar Örn Þormar, framkvæmdastjóri Reon, segir kaupin styrkja bæði félögin þar sem Reon fái aðgang að þekkingu Hugfimi við flókna gagnavinnslu og framsetningu. Hugfimi fái svo aðgang að þróunarteymum Reon sem geri félaginu kleift að taka að sér stærri verkefni og setja meiri kraft í þróun á EYK. Elvar segir kaupin einnig vera lið í stefnu Reon að setja meiri kraft í eigin vöruþróun en fyrir á félagið og rekur tvær aðrar hugbúnaðarvörur, Vefáskrift og TeamHealth.

„Hugfimi er gríðarlega spennandi fyrirtæki með mikla vaxtarmöguleika og þá sérstaklega erlendis. Til að það gangi upp þarf að styðja við aukna þróun innan fyrirtækisins. Við teljum að með aðkomu Reon að félaginu og auknum krafti í vöruþróun þess sé hægt að byggja á allri þeirri góðu vinnu sem hefur farið í félagið undanfarin ár og efla markaðssókn til muna," segir Elvar. „Reon hefur gríðarlega öflugt og breitt þekkingarnet á sviði stafrænnar vöruþróunar og sölu á stafrænum vörum. Sú þekking mun koma að góðum notum á komandi misserum og ætlum við okkur stóra hluti með Hugfimi og EYK," bætir hann við.

Bjarki Ásbjarnarson, sem er framkvæmdastjóri Hugfimi, segir að kaupin feli í sér mikil tækifæri fyrir félagið. „Það er ómetanlegt að fá aðgengi að þeirri reynslu og þekkingu sem Reon býr yfir. Við í Hugfimi lítum á þetta sem mikinn liðsauka og sjáum fram á að geta aukið vöruframboð og bætt okkar þjónustu í kjölfarið. Okkar sérsvið er að gera gagn úr gögnum og með þessari sölu getum við gert enn meira gagn úr þeim gögnum sem okkur er treyst fyrir. Við þökkum Mannviti innilega fyrir stuðninginn og traustið sem þau hafa veitt okkur. Það er ákaflega mikilvægt fyrir samfélög eins og okkar að geta gengið að jafn framsæknum og víðsýnum fyrirtækjum og Mannviti."

Elvar bendir á að Mannvit sé ekki hugbúnaðarfyrirtæki og því sé starfsemi Hugfimi ekki innan sérsviðs fyrirtækisins. „Mannvit var að vissu leyti búið að fara eins langt og þeir gátu farið með þetta félag. Það var búið að byggja upp frábæran hugbúnað byggðan á allri þeirri þekkingu sem Mannvit hefur á að skipa innanhúss. En ástæðan fyrir því að við komum inn í fyrirtækið núna er að það vantaði svolítið möguleikann á að selja hugbúnaðinn á fleiri staði og í fleiri geira heldur en hingað til."

Hvað er Reon?

„Reon er tíu ára gamalt hugbúnaðarfyrirtæki og við höfum á þeim tíma verið í allskonar hugbúnaðargerð. Við veitum nokkrum af stærstu fyrirtækjum á Íslandi ýmiss konar stafræna þjónustu," útskýrir Elvar. Kjarnastarfsemi félagsins snúist um smíði á hugbúnaði og hugbúnaðartengda ráðgjöf. „Við erum mikið í stafrænum verkefnum, allt frá bakendakerfum yfir í smáforrit og vefkerfi. Í fyrra keyptum við svo ráðgjafarfyrirtækið Vínber, sem sérhæfir sig í vefverslunum og markaðssetningu á netinu en við kaupin breyttist nafnið á félaginu í Koikoi. Auk þess höfum við keypt hlut í hönnunarstofu sem heitir Jökulá." Þannig hafi félagið keypt sig inn í þjónustufyrirtæki sem veita þjónustu sem hægt sé að samtengja þeirri þjónustu sem Reon býður upp á.

Elvar segir Reon einnig leggja mikla áherslu á að styðja við frumkvöðla og sprotafyrirtæki. „Við rekum frumkvöðlasetrið Musterið í húsnæðinu okkar í Borgartúni í samstarfi við KPMG, en um 20 frumkvöðlafyrirtæki eru með aðsetur þar. Þá eigum við verkstæði í Keldnaholti sem er hannað fyrir frumgerðarsmíði og heitir einmitt Frumgerðin. Í desember settum við svo á fót fjárfestingafélagið Nordican, sem fjárfestir í sprotafyrirtækjum. Félagið fjárfestir í frumkvöðlaverkefnum sem eru á fyrstu stigum og hjálpa þannig frumkvöðlum að komast af stað."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .