Samkvæmt frummati samkeppniseftirlitsins á viðskiptaháttum Guðmundar Kristjánssonar, aðaleiganda Brims og forstjóra HB Granda, gæti hann verið sekur um „alvarleg brot“ á samkeppnislögum. Þetta kemur fram í bréfi frá Samkeppniseftirlitinu sem Markaðurinn hefur undir höndum og fréttablaðið segir frá í morgun.

Eftirlitið gerir fjórar athugasemdir. Það að aðaleigandi Brims – sem er stærsti eigandi HB Granda með þriðjungshlut – sé forstjóri HB Granda kunni að leiða til samkeppnislagabrota, en Guðmundur hefur verið forstjóri frá því í júní eftir að Brim keypti þriðjungshlutinn í Granda.

Þar að auki er gerð athugasemd við setu Guðmundar í stjórn Vinnslustöðvarinnar, sem Brim átti þriðjungshlut í þar til í gær, en samkvæmt tilkynningu til Ríkisskattstjóra hætti Guðmundur í stjórn þar 10. apríl síðastliðinn.

Guðmundur sé því eini eigandi eins félags, forstjóri annars, og stjórnarmaður í því þriðja, sem séu öll á sama markaði, sem eftirlitið segir varhugavert í samkeppnislegu tilliti.