Íslenskur textíliðnaður, Ístex, tapaði 105 milljónum króna eftir skatta í fyrra samanborið við 153 milljóna hagnað árið áður.

Rekstrartekjur félagsins drógust saman um 17,9% milli ára og námu 1.252 milljónum króna. EBITDA-afkoma var neikvæð um 14 milljónir en jákvæð um 289 milljónir árið áður.

Eignir voru bókfærðar á 1,5 milljarða króna í árslok 2024 og eigið fé var um 371 milljón. Eiginfjárhlutfall lækkaði úr 34% í 24% milli ára.

Miklar sveiflur í fyrra

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins segir að reksturinn í fyrra hafi einkennst af miklum sveiflum. Sala á handprjónabandi fyrstu 10 mánuði ársins hafi verið sú önnur besta í sögu félagsins. Ný bandtegund Fjallalopi hafi átt stóran þátt í því.

„Hins vegar voru september og október afar erfiðir eða með tekjufall upp á tæpar 150 milljónir. Megin ástæða þessa tekjufalls er að margir stórir erlendir viðskiptavinir stóðu í aðgerðum eftir sumarið um að lækka fjármagnskostnað með að minnka birgðir og miða við að eiga 1-3 mánaða birgðir í stað 3-6 mánaða. Þá voru stórar skipulagsbreytingar hjá ákveðnum aðilum.“

Ístex segir að ljósu punktarnir séu að sala á handprjónabandi innanlands hafi aukist um 30% á milli ára á tveimur erfiðu seinustu mánuðum ársins. Þá hafi flestir söluaðilar erlendis greint frá ágætri sölu til þeirra viðskiptavina.

Sala á ullarteppum hjá Ístex var treg fram yfir á mitt ár og endaði í samdrætti í teppasölu um tæp 20% á milli ára. Félagið segir sömu sögu mega segja um sölu á iðnaðarbandi til annarra framleiðenda, en sala á því minnkaði um rúm 20%. Þá var stórum verkefnum á iðnaðarbandi og í sængurullarsölu frestað fram á nýtt ár.

„Til að bregðast við erfiðu hausti var gripið til harkalegra aðhaldsaðgerða með uppsögnum og að ekki var ráðið í störf sem losnuðu. Þannig að á milli ára var fækkað um 13 stöðugildi.“

Meðalfjöldi starfa hjá Ístex var 64,2 í fyrra samanborið við 60,6 árið áður.

Hluthafar Ístex voru 2.458 í lok síðasta árs. Stærsti hluthafi Ístex eru Landssamtök sauðfjárbænda með 21,3%.