Sjö einstaklingar sem voru meðal stærstu hluthafa Mannvits áður en alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið COWI international A/S keypti öll hlutabréf í fyrirtækinu rata á lista yfir fjármagnstekjuhæstu Íslendingana árið 2023, samkvæmt álagningarskrá ríkisskattsstjóra.
Fyrir yfirtöku COWI voru hluthafar Mannvits 51 talsins en þar af áttu sjö meira en 5% hlut.
Sjö einstaklingar sem voru meðal stærstu hluthafa Mannvits áður en alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið COWI international A/S keypti öll hlutabréf í fyrirtækinu rata á lista yfir fjármagnstekjuhæstu Íslendingana árið 2023, samkvæmt álagningarskrá ríkisskattsstjóra.
Fyrir yfirtöku COWI voru hluthafar Mannvits 51 talsins en þar af áttu sjö meira en 5% hlut.
Þeir sem rata á fjármagnstekjulistann í ár eru verkfræðingarnir Gunnar Sverrir Gunnarsson, Tryggvi Jónsson og Þröstur Helgason, sem áttu 6,24% hlut hver, Eggert Aðalsteinsson, sem átti 5,48%, Valgeir Kjartansson, sem átti 5,18%, Viðar Jónsson, sem átti 5,12%, og Torfi G. Sigurðsson, sem átti 4,77% hlut.
Þröstur, Tryggvi og Gunnar voru með á bilinu 219-233 milljónir króna í fjármagnstekjur, Eggert var með 210 milljónir, Valgeir var með 196 milljónir, Viðar var með 201 milljón, og Torfi var með 182 milljónir.
Ekki kemur fram í nýjasta ársreikningi COWI Ísland, áður Mannvit, hvað kaupverðið var. Ekki er útilokað að umræddir einstaklingar hafi greitt einhvern fjármagnstekjuskatt vegna annarra verkefna en varlega áætlað, miðað við fjármagnstekjur stærstu hluthafanna, má þó ætla að COWI hafi samanlagt greitt á bilinu 3,5-4 milljarða króna hið minnsta fyrir eignarhlutinn í Mannviti.
Hagnaður samstæðu COWI Ísland nam 639 milljónum króna í fyrra, samanborið við 604 milljónir árið 2022. Velta samstæðunnar jókst um tæplega 700 milljónir milli ára og nam 6,3 milljörðum árið 2023. Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á tæplega 2,6 milljarða og eigið fé nam tæplega 1,2 milljörðum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast listann yfir 150 fjármagnstekjuhæstu einstaklingana árið 2023 í heild hér.