Þýska lögreglan, saksóknarar og fjármálaeftirlit Þýskalands gerðu húsleit í höfuðstöðvum Deutsche Bank í morgun. Hlutabréf þýska bankans hafa fallið um 3% við fréttirnar. Financial Times greinir frá. Saksóknarar sögðu að héraðsdómur Frankfurt hafi veitt húsleitarheimild en vildu að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Deutsche Bank hefur staðfest fréttirnar og sögðu að málið tengist tilkynningum um grunsamlegt athæfi sem bankinn hafi flaggað sem mögulegt peningaþvætti.

Í umfjöllun breska dagblaðsins er bent á að 170 lögreglumenn, saksóknarar og skatteftirlitsmenn hafi gert húsleit hjá Deutsche Bank í nóvember 2018 vegna meints peningaþvættis. Sú rannsókn snerist að grunsamlegum færslum hjá eignstýringardeild á árunum 2015-2018. Rannsókninni var hætt síðar en Deutsche Bank greiddi 15 milljónir evra vegna annmarka við peningaþvættisvarnir.

Í október 2020 sektuðu saksóknarar í Frankfurt Deutsche Bank um 13,5 milljónir evra fyrir síðbúna flöggun á grunsamlegum færslum í útibúi bankans í Eistlandi.