Afstaða Evrópusambandsbúa til helstu viðfangsefna samtímans er á ýmsa lund eftir löndum, aldri eða tekjum, en þó má greina ýmsa meginstrauma sem þeir eiga sameiginlega. Ekki síst á það við um áhyggjur af innflytjendamálum og vantrú á helstu stofnunum.

Víðtæk, árleg rannsókn ungversku hugveitunnar Századvég á viðhorfum íbúa Evrópusambandsríkjanna 38 til helstu viðfangsefna samtímans kom út í fyrri viku. Hún leiðir í ljós verulega svartsýni á næstu framtíð og vantrú á getu Evrópusambandsins (ESB) til þess að takast á við helstu vandamálin, sem við er að eiga. Eftir sem áður vill þorri manna vera áfram í Evrópusambandinu, þó vissulega sé umhugsunarefni að fjórðungur svarenda telji sínu landi betur borgið utan þess.

Afstaða innan einstakra ríkja er vitaskuld mismunandi og eins má greina ólíkar áherslur milli svæða. Í Þýskalandi eru stjórnmálin helsti ásteytingarsteinninn, á Spáni landlægt atvinnuleysi meðal ungs fólks, en í Póllandi hafa menn áhyggjur af áhrifum Brexit, fyrirhugaðri úrgöngu Breta úr ESB, en milli landanna eru mikil og náin tengsl.

En svo eru önnur mál, eins og flóttamannavandinn og innflytjendamál, sem hvíla mjög þungt á fólki um nánast alla álfu og þar má greina verulegan mun á afstöðu almennings og stjórnmálastéttarinnar, svo mikinn raunar, að menn þurfa ekki að vera hissa á stjórnmálaólgu og óvæntum kosningaúrslitum í hinum ýmsu löndum ESB. Merkilega er fremur hvers vegna uppstokkunin hefur ekki verið meiri en raun ber vitni.

Pupullinn og pólitíkusarnir

Undanfarin ár hafa ekki verið auðveld fyrir Evrópusambandið. Fjármálakreppan reyndist evrópska bankerfinu einstaklega erfið og umbreyttist í evrukreppuna, sem enn sér ekki fyrir endann á, og þá kom Brexit eins og skrattinn úr sauðarleggnum og flækti málin enn frekar. Mörg þeirra mála hafa verið á dagskránni í Brussel og höfuðborgum aðildarríkjanna, en fæst þeirra hafa verið brotin til mergjar í þjóðmálaumræðu aðildarríkjanna og enn síður hafa kjósendur tekið af skarið um þau, m.a. vegna þess að stjórnmálaflokkarnir hafa fæstir boðið neina kosti í því, nema stöku jaðarflokkar.

Þetta á ekki síður við um sérlega viðkvæm mál eins og innflytjendur (löglega, ólöglega, farandfólk sem hælisleitendur), evrópska menningarvitund og íslam. Almenningur hefur greinilega verulegar áhyggjur af því öllu, en mörgum þykir sem ekki mega ræða þau mál nema eftir tiltekinni forskrift, aðeins megi ræða kostina við innflytjendur fyrir hagkerfið, en margvísleg félagsleg vandamál síður.

Auðvitað eru engar hömlur á því hvað menn mega segja upphátt í lýðræðisríkjum Evrópu, en ef til vill glittir þarna fremur í muninn á því, sem almenningur kann að hugsa, og hinu, sem stjórnmálamenn þora að segja upphátt. Sem aftur kann að skýra óvænt kosningaúrslit hér og þar.

Það er t.d. merkilegt að jafnvel nú, tveimur árum eftir að flóttamannavandinn reis hæst, skuli ¾ íbúa ESB telja að sambandið standi sig ekki í stykkinu í þeim efnum og það er alveg sama hlutfall og í fyrra. Þegar spurt er um efnahagskreppu undanfarins áratugar eru skoðanir skiptar eftir löndum, allt frá 12%-81% telja að ESB hafi staðið sig illa við að ráða niðurlögum hennar, en hvað innflytjendamálin varðar er munurinn miklu, miklu minni.

Mætti jafnvel segja að um ekkert eitt mál séu Evrópubúar jafn sammála. Athyglisvert er að bera það saman við áhyggjur af hryðjuverkum og fjölgun múslima í Evrópu, hvort sem þar er nú orsakasamhengi á milli eða ekki.

Gjá milli þinga og þjóða

Vel má sjá að almenningur hefur litla trú á stjórnvöldum — bæði í sínum eigin löndum og Evrópusambandinu öllu — til þess að leysa vandann. Þegar spurt var nánar kom fram mikill vilji til þess að færa völd frá ESB aftur til aðildarríkjanna, ekki síst hvað varðar hluti eins og landamæraeftirlit milli ríkjanna, sem hefur nánast legið niðri undanfarna áratugi.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .