Skógarböðin í Vaðlaheiði gegnt Akureyri fögnuðu á dögunum eins árs starfsafmæli. Á ‏þeim tólf mánuðum sem böðin hafa verið starfrækt þá hafa þau tekið á móti um 106 þúsund gestum. Áætlanir gerðu ráð fyrir 50 þúsund gestum fyrsta árið og að gestakomur yrðu síðar nær 75-80 þúsund á ári.

Finnur Aðalbjörnsson, sem stofnaði Skógarböðin ásamt eiginkonu sinni Sigríði Maríu Hammer, segir bókunarstöðuna afar góða fyrir sumarið og á því ekki von á öðru en að aðsóknin verði jafngóð eða betri í sumar. Spurður um hvað skýri hina miklu gestakomu þá segist hann ekki vera með neina sérstaka skýringu.

„Markaðssetningin tókst bara frábærlega vel en við fórum þó ekki af stað með hana fyrr en böðin opnuðu. Svo er hluthafahópurinn mjög samstilltur og góður, þetta eru allt vinir og kunningjar. Menn stóðu þarna blóðugir upp að öxlum og standa enn, vinnandi endalausa sjálfboðavinnu og brasandi öll kvöld og nætur. Það endurspeglast svolítið í því hvað það hefur gengið ótrúlega vel.“

Skógarböðin vöktu athygli nokkurra erlendra fjölmiðla og tók CNN viðtal við Sigríði í aðdraganda opnunarinnar. Finnur segir að Markaðsstofa Norðurlands eigi einnig hrós skilið fyrir að auglýsa svæðið vel.

Byggja hótel og böðin stækkuð

Áform eru um að reisa 120 herbergja hótel við Skógarböðin. Horft er til þess að þar verði tólf svítur og um 200 manna ráðstefnusalur.

Finnur segir að hugmyndir séu uppi um að lengja laugina um rúma 80 metra þannig að hún nái alveg upp að hótelinu og hótelgestir geti þá stokkið beint út í. Málið er enn í ferli hjá skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar en vonast er til að opna hótelið eftir tvö ár.

„Við hjónin erum heppin að eiga þetta land hérna og við viljum hjálpa við að byggja upp þetta svæði,“ segir Finnur. Hann bætir við að ferðaþjónusta á Norðurlandi hafi fundið fyrir skorti á gistiaðstöðu og hóteluppbygging geti því stuðlað að bættum forsendum fyrir millilandaflugi til Akureyrar.

Nánari umfjöllun um Skógarböðin má finna í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.