Árshlutauppgjör Alphabet er væntanlegt eftir lokun markaða vestanhafs en Microsoft og Meta skila síðan uppgjörum á morgun. Árshlutauppgjör Amazon er síðan væntanlegt á fimmtudaginn en Tesla skilaði uppgjöri í síðustu viku, sem var vel yfir spám greinenda.
Fjárfestar þurfa þó að bíða í mánuð til viðbótar eftir uppgjöri Nvidia en engu að síður ákvað Unhedged fréttabréf Financial Times að hvetja fjárfesta til að ákveða stöðutökur í tengslum við yfirvofandi uppgjör tæknifyrirtækjanna sjö.
Til að aðstoða fjárfesta við valið fylgdi hjálögð tafla með sem sýnir gengisþróun bréfa félaganna, markaðsvirði þeirra og tekju- og hagnaðarvæntingar.
Robert Armstrong, sem ritar fréttabréfið, segist sjálfum hugnast best að fjárfesta í Alphabet, móðurfélagi Google, þar sem V/H hlutfall félagsins (e. price to earnings) er það lægsta af fyrirtækjunum sjö á meðan tekju- og hagnaðarspár eru í takti við hin félögin, að undanskildum Nvidia og Tesla.
Í fréttabréfinu segir hann að Google sé líklegast til að mæta afkomuspá sinni án þess að þurfa auka tekjurnar gríðarlega en það á ekki við um t.d. Amazon og Apple.
Armstrong segir að það sé erfitt að spá fyrir hvenær „gervigreindar- gullæðið“ í kringum Nvidia muni taka enda en hann segir sambærilega óvissu ríkja um framgang RoboTaxi-bíla Tesla.
Elon Musk greindi nýverið frá því að Tesla býst við því að bíllinn muni leika lykilhlutverk í næsta kafla fyrirtækisins. Tesla segist einnig vera með 20 sæta bíl í þróun sem hefur vinnuheitið Robovan. Musk segist búast við því að bíllinn fari í framleiðslu fyrir árið 2026 en sérfræðingar hafa dregið í efa hversu raunhæf sú tímatafla er.
Armstrong segir þó að fjárfesting í Google að þessu stigi sé virðisfjárfesting sem er kannski ekki mest spennandi leiðin til að fjárfesta en hann telur að bréf félagsins muni hækka töluvert á næstu 12 mánuðum án þeirrar áhættu sem fylgir Tesla og Nvidia.
„En ef ég ætti að velja eitt félag af þessum sjö til að fjárfesta í og síðan sofna í tuttugu ár. Einn af hornsteinum í forsendum Unhedged er að fá félög geta viðhaldið örum vexti til lengri tíma og því erfitt að spá fyrir um hvar félögin verða þá. Núverandi virði þeirra skiptir litlu máli í því samhengi en ég myndi klárlega velja Amazon,“ skrifar Armstrong.
Að hans mati eru bæði netverslun og skýjavinnsla sveigjanlegir geirar sem hægt er að auka vöxt í án tiltölulega mikils kostnaðar.
„Ég held engu að síður ekki að gengi Amazon muni hækka mest af félögunum sjö á næstu tuttugu árum en ég held það séu minnstu möguleikarnir á að hlutabréf þeirra muni valda mér miklum vonbrigðum er ég vakna árið 2044,“ skrifar Armstrong.