Pétur Már Halldórsson hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri íslenska hátæknifyrirtækisins Nox Medical og Ingvar Hjálmarsson tekið við. Pétur hafði leitt félagið frá árinu 2011 en hann tekur nú sæti í stjórn Nox Health, bandarísku móðurfélagi Nox Medical.

„Við hjá Nox höfum átt miklu láni að fagna síðasta áratug. Vöxtur félagsins hefur verið hraður, arðsemin góð, og Nox Health nú í kjörstöðu til að taka enn stærri skref til vaxtar,“ segir Pétur.

Ingvar, sem tekið hefur við stöðu framkvæmdastjóra, hefur starfað hjá Nox síðastliðin tíu ár og setið í framkvæmdastjórn sem einn af lykilstjórnendum félagsins. Þar hefur hann haft yfirumsjón með stefnumótun, vörustýringu, markaðsmálum og umbreytingu.

„Þegar ég horfi yfir þennan ótrúlega hóp sem starfar hjá Nox Medical og eygi líka tækifærin í framtíðinni, þá er óþreyja og eftirvænting sem hellist yfir. Við erum bara rétt að byrja,“ segir Ingvar, en hann telur að tekjur Nox Medical geti tvöfaldast á næstu árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.