Matvöruheimsendingarfyrirtækið Instacart hóf almennt frumútboð í aðdraganda skráningar á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinn vestanhafs á mánudag, en bréf félagsins verða tekin til viðskipta í næstu viku.

Vonast er til að um 600 milljónir dala fáist fyrir 22 milljónir hluta sem til stendur að selja á genginu 26 til 28 Bandaríkjadalir á hlut. Til hafði staðið að skrá félagið á markað í fyrra en sviptingar á hlutabréfamörkuðum urðu til þess að því var slegið á frest.

Í viðleitni sinni til að tryggja að útboðið gangi sem best hefur félagið þegar safnað vilyrðum stórra fjárfesta fyrir þátttöku upp á 400 milljónir dala. Verðmat félagsins í útboðinu er um 9 milljarðar dala, en það er verulegur samdráttur frá þeim tæpu 40 milljörðum dala sem það var metið á í fjármögnunarlotu árið 2021.