Fraser-stofnunin (e. Fraser Institute) í Kanada hefur nú birt niðurstöður alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar á efnahagslegu frelsi í heiminum. Þar kemur fram að Ísland er í 14. sæti á lista 165 landa sem rannsóknin nær til, en var í 11. sæti árið 2022 og 16. sæti árið 2021.

Í tilkynningu segir að staða Íslands helgist einkum af sterkum lagalegum og pólitískum innviðum, ríkri vernd eignarréttar, en íþyngjandi regluverki í viðskiptaumhverfi fyrirtækja og á vinnumarkaði í samanburði við önnur lönd. Hlutfallslega mikil umsvif hins opinbera raða Íslandi líka neðar á lista.

Einkunnir Íslands í lykilflokkum eru eftirfarandi: (á skalanum 1-10 þar sem hærri tala bendir til meira efnahagslegs frelsis.)

  • Umfang hins opinbera: Einkunnin hækkar úr 5,74 í 5,98 frá fyrra ári. Ísland er í 117. sæti í þessum flokki.
  • Lagaumhverfi og vernd eignarréttar: Einkunnin er 8,77 og lækkar lítillega úr 8,78 frá fyrra ári. Ísland situr í 6. sæti í þessum flokki.
  • Aðgangur að traustum gjaldmiðli: Einkunnin lækkar úr 9,55 í 9,42 frá fyrra ári. Ísland situr í 27. sæti í þessum flokki.
  • Frelsi til alþjóðaviðskipta: Einkunnin hækkar í 8,38 úr 8,12. Ísland situr í 18. sæti í þessum málaflokki.
  • Reglubyrði: Einkunnin lækkar í 7,12 úr 7,24 frá fyrra ári. Ísland situr í 43. sæti í þessum flokki. (Undirflokkar hér eru: fjármálamarkaður, vinnumarkaður og viðskiptaumhverfi)

Efnahagslegt frelsi er mest í Singapúr samkvæmt skýrslunni, þar á eftir kemur Hong Kong, Sviss og svo Nýja-Sjáland. Þá koma Bandaríkin, Írland, Danmörk, Ástralía, Bretland og Kanada. Af öðrum Norðurlandaþjóðum þá deila Finnar og Svíar 17. sæti og Norðmenn verma það 29.

Samkvæmt skýrslunni eru hornsteinar efnahagslegs frelsis valfrelsi einstaklinga, viðskiptafrelsi, samkeppnisfrelsi, sterkir lagalegir innviðir, aðgangur að traustum gjaldmiðli og vernd eignarréttar.

Botn listans verma svo Súdan, Sýrland, Simbabve og Venesúela. Þjóðir á borð við Kúbu og Norður-Kóreu finnast ekki á listanum þar sem viðeigandi gögn eru ekki fyrir hendi.