Straumlind sendi á dögunum erindi til raforkueftirlits Orkustofnunar til að kanna hvað tefji dreifiveitur aðrar en HS Veitur við að senda tímamæld gögn úr snjallmælum til miðlægs gagnagrunns Netorku.

Samkvæmt upplýsingum frá Veitum, sem eru með flesta mæla, er búið að skipta út 33 þúsund mælum en 136 þúsund eru eftir og stefnt er á að ljúka útskiptum í árslok 2025. Fyrstu tímaraðir gætu farið að berast söluaðilum í lok september 2023 eða þegar ný hugbúnaðarútgáfa á að vera komin en hún hafi tafist. Kappsmál sé að koma snjallmælum í fulla virkni sem fyrst.

„Við tökum undir með Straumlind að snjallmælar séu hluti af eðlilegri framþróun raforkumarkaða og með því að senda tímamæld gögn um raforkunotkun skapast fjöldi spennandi tækifæra til bættrar nýtingar hjá notendum,“ segir Jóhannes Þorleiksson, forstöðumaður rafveitu hjá Veitum.

Í fréttatilkynningu frá Straumlind var því meðal annars velt upp hvort dreifiveiturnar fjórar, sem eru með tengsl við aðra raforkusala, væru að hægja á framþróun og hindra Straumlind í að nálgast upplýsingar. Jóhannes segir slíkar ásakanir ekki eiga við nein rök að styðjast.

„Öll gögn úr snjallmælum Veitna eiga að fara til Netorku og vera þannig aðgengileg öllum sölufyrirtækjum raforku.  Í umræddri fréttatilkynningu eru settar fram alvarlegar ásakanir um að Veitur séu að hægja á snjallmælavæðingunni vegna tengsla sinna við Orku náttúrunnar sem eiga ekki við nein rök að styðjast.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.