Íslandshótel stefna á skráningu á aðallista Kauphallarinnar í haust. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Viðskiptablaðsins hefur stjórn félagsins samið við Íslandsbanka og Kviku um ráðgjöf og umsjón vegna fyrirhugaðs útboðs og skráningar í Kauphöllina. Samningar voru undirritaðir við Íslandsbanka fyrir nokkrum vikum en gengið var frá endanlegum samningum við Kviku í þessari viku.

Samkvæmt heimildum blaðsins hefur enn ekki verið tekin endanleg ákvörðun um hvort um verði að ræða útgáfu nýs hlutafjár eða sölu núverandi eigenda hótelkeðjunnar á eign sinni að hluta. Endanleg útfærsla mun liggja fyrir í haust og taka eðli málsins samkvæmt mið af markaðsaðstæðum.

Íslandshótel eru stærsta hótelkeðja landsins og eins og Viðskiptablaðið greindi frá í maí hafa stjórnendur skoðað skráningu í Kauphöllina á undanförnum misserum. Fátt virðist geta breytt þeim áformum að óbreyttu nema þá frekari breytingar á markaðsaðstæðum.

Stærsti hluthafi Íslandshótela er Ólafur D. Torfason, stjórnarformaður félagsins, en hann fer með um 75%. Fjárfestingarfélagið S38 slhf. er annar stærsti hluthafinn með 24% hlut sem keyptur var á ríflega 2,8 milljarða króna árið 2015. S38 er að mestu í eigu lífeyrissjóða í gegnum samlagshlutafélögin Kjölfestu og Eddu. Ætlaður líftími bæði Eddu og Kjölfestu rennur út á næsta ári.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.