Áætlað umfang íslenska veðmálamarkaðarins nam 20 milljörðum króna árið 2023, að því er kemur fram í nýrri úttekt Viðskiptaráðs. Íslendingar veðjuðu næst mest allra Evrópuríkja árið 2023 en aðeins Írar vörðu meiri fjármunum í veðmálum, sé horft til veðmál á mann.
Áætlað umfang íslenska veðmálamarkaðarins nam 20 milljörðum króna árið 2023, að því er kemur fram í nýrri úttekt Viðskiptaráðs. Íslendingar veðjuðu næst mest allra Evrópuríkja árið 2023 en aðeins Írar vörðu meiri fjármunum í veðmálum, sé horft til veðmál á mann.
„Þær þröngu skorður sem stjórnvöld settu veðmálastarfsemi leiddu því ekki til minni umsvifa veðmála samanborið við önnur ríki,“ segir í úttektinni. „Takmarkanir stjórnvalda hafa valdið því að stór og hratt vaxandi hluti veðmála fer fram utan landsteinanna.“
Ofangreint umfang veðmálaiðnaðarins miðast við spilatekjur, en þær eru skilgreindar sem tekjur af veðmálum að frádregnum útgreiddum vinningum. Veðmál Íslendinga á erlendum veðmálasíðum eru meðtalin í spilatekjum.
Hlutfall netveðmála utan landsteina lægst á Íslandi
Fram kemur að fyrir 20 árum síðan hafi 91% veðmála farið fram hjá innlendum sérleyfishöfum. Síðan þá hafi veðmálamarkaðurinn fimmfaldast að stærð og hlutdeild innlendra aðila lækkað niður í 56%. Hlutdeild erlendra veðmálasíðna hafi vaxið á móti.
„Hlutfall netspilatekna sem fer í gegnum leyfishafa hérlendis er það lægsta í Evrópu. Einungis 20% netveðmála Íslendinga fara fram innan landsteinanna. Hlutfallið er almennt notað sem mælikvarði á árangur stjórnvalda að beina veðmálum á regluvæddan markað.“
Starfsleyfi skili hátt í 5 milljarða árlega
Viðskiptaráð segir tölurnar gefa til kynna að ströng nálgun stjórnvalda hafi ekki skilað tilsettum árangri í þessum málum. Ráðið leggur til að veðmál verði leyfð hérlendis með upptöku starfsleyfa í stað sérleyfa og banna.
Ráðið segir að flest Evrópuríki hafi tekið upp starfsleyfi í stað sérleyfa. Starfsleyfi geri öllum sem uppfylla skilyrði þeirra kleift að stunda veðmálarekstur. Á sama tíma gera starfsleyfi stjórnvöldum kleift að móta umgjörð veðmálastarfsemi og setja henni skorður, t.d. varðandi skattgreiðslur, auglýsingar, forvarnir og viðskiptahætti.
Viðskiptaráð áætlar að starfsleyfi muni skila ríkissjóði 4,8 milljörðum króna á ári í formi viðbótarskatttekna.
Í dag bjóða innlendir sérleyfishafar upp á spilakassa, happdrætti og íþróttaveðmál. Engin undanþága hefur verið veitt vegna spilavíta. Rúmlega helmingur spilatekna á markaðnum fer í gegnum þessa aðila, en hinn helmingurinn fer í gegnum erlendar veðmálavefsíður.
Á Íslandi eru engir skattar lagðir á veðmálastarfsemi. Innlendir sérleyfishafar eru almannaheillafélög og eru því undanþegnir tekjuskatti lögaðila.
Erlendir rekstraraðilar greiða ekki tekjuskatt hérlendis. Til viðbótar eru veðmál undanþegin virðisaukaskatti og vinningar spilara skattfrjálsir.
„Þetta fyrirkomulag er frábrugðið öðrum Evrópuríkjum. Almennt tíðkast að ríki leggi bæði tekjuskatt á hagnað og einnig sérstakan veðmálaskatt á spilatekjur leyfishafa. Veðmálaskatturinn nemur til dæmis 22% í Svíþjóð og 28-35% í Danmörku.“