Það mun taka að minnsta kosti tvö ár fyrir framboð íbúða að ná eftirspurninni að sögn Hannesar Steindórssonar, fasteignasala hjá Lind fasteignasölu. „Það eru 350 eignir til sölu á höfuðborgarsvæðinu, en þær þyrftu í raun að vera fjögur þúsund.“

Hannes segir aðgerðir Seðlabankans hafa hægt á markaðnum, sérstaklega að undanförnu. „Fyrst um sinn gerðu aðgerðirnar nánast ekki neitt. Síðustu vaxtahækkanir hafa hins vegar klárlega hægt á og eru fyrstu kaupendur sá hópur sem er að fara verst út úr þessum aðgerðum, það segir sig sjálft. Bæði með vaxtahækkunum en líka með breytingum á veðsetningarhlutfalli.“

Meira en helmingur eigna seldust á yfirverði í vor. Hannes telur að hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði verði komið niður í 25% eftir 1-2 mánuði og að í lok árs fari eignir annað hvort á ásettu verði eða undir verði. „Fólk er að halda að sér höndum og það eru margir farnir að bjóða töluvert undir verð. Verðið er orðið hátt og allar fréttir tiltölulega neikvæðar.“

Már Wolfgang Mixa, lektor í viðskiptafræði við HÍ sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 í gær að það kæmi honum ekki á óvart ef fasteignaverð myndi lækka um 10-20%. Hannes er hins vegar ekki á sama máli. „Mér finnst ótrúlegt að menn spái fyrir um 20% lækkun. Byggingakostnaður hefur hækkað mikið og lóðaverð hefur aldrei verið hærra og er ekki að fara lækka.“

Hann segir að á næstu tólf mánuðum muni fasteignaverð í mesta lagi lækka um 1-3% á 1-2 mánuðum. „Það er það versta sem gæti gerst og það er engin lækkun,“ segir Hannes. Fréttir um að fasteignaverð sé að fara lækka hafi ekki síst áhrif á markaðinn. „Aðgerðirnar hægja á en það sem hægir alveg jafn mikið eru almennar fréttir um að fasteignaverð sé að fara lækka.“

Óraunhæft að byggja 4.000 íbúðir á ári

Starfshópur á vegum Þjóðhagsráðs skilaði frá sér tillögur í maí á þessu ári um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði. Í starfshópnum eru aðilar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, HMS, sveitarfélaga og aðila á vinnumarkaði. Meðal tillagna er að ríki og sveitarfélög geri rammasamkomulag um uppbyggingu 35 þúsund íbúða næstu tíu ár þar sem sveitarfélög tryggja lóðaframboð til að byggja fjögur þúsund íbúðir árlega á næstu fimm árum og 3.500 íbúðir árlega næstu fimm ár þar á eftir til að mæta áætlaðri þörf fyrir íbúðarhúsnæði.

Hannes hefur efasemdir um það hvort tillögurnar séu framkvæmanlegar. „Þetta eru allt frábærar hugmyndir en þetta er meira en að segja það. Okkur hefur einungis þrisvar tekist að byggja meira en þrjú þúsund íbúðir frá upphafi alda. Því er þetta gríðarlega verðugt verkefni og það þarf að flytja inn mörg þúsund iðnaðarmenn.“