Ársverðbólga í Tyrklandi mældist 49,4% í september, samanborið við 52,0% í ágúst, og fór þar með undir 50% í fyrsta sinn í meira en ár.

Eftir skarpt vaxtahækkunarferli sem hófst um mitt síðasta ár eru stýrivextir í Tyrklandi nú 50%. Vaxtahækkunarferlinu var ætlað að ná tökum á gríðlegum verðhækkunum sem rekja má að stóru leyti til þess að taumhald peningastefnu tyrkneska seðlabankans hafði verið mjög laust um langt skeið.

Hjöðnun verðbólgunnar í síðasta mánuði gerir það að verkum að ársverðbólga er orðin lægri en stýrivextir í landinu, þ.e. raunstýrivextir eru orðnir jákvæðir, í fyrsta sinn frá árinu 2021.

Vísitala neysluverðs í Tyrklandi hækkaði hins vegar um nærri 3% milli mánaða, talsvert yfir væntingum hagfræðinga. Tyrkneski seðlabankinn steig því varlega til jarðar að fagna því að raunstýrivextir í landinu séu orðnir jákvæðir.

Þurfi sennilega að fresta byrjun vaxtalækkunarferlisins

Seðlabankastjórinn Fatih Karahan sagði að bankinn ætti enn þó nokkuð í land þar til hann nær tveimur helstu verðbólgumarkmiðum sínum. Þau eru annars vegar að ná mánaðarbreytingum á vísitölunni varanlega niður í eðlilegt horf og hins vegar að verðbólguvæntingar verði í auknum mæli í samræmi við verðbólguspár bankans.

Í umfjöllun Reuters segir að verðbólgumælingin í síðasta mánuði, sem var yfir væntingum hagfræðinga, geri það líklega að verkum að vaxtahækkunarferli seðlabankans hefjist líklega síðar en markaðsaðilar höfðu vonast til.

Greiningaraðilar telja að seðlabankinn geti sennilega ekki lækkað vexti fyrr en í fyrsta lagi í desember og jafnvel ekki fyrr en á næsta ári.