Jónas Guðbjörnsson, fjármálastjóri HB Granda, mun hætta störfum hjá félaginu 30. júní næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Hann mun verða félaginu áfram til halds og trausts næstu mánuðina. Jónas hefur starfað hjá félaginu í 9 ár.

„Ég vil fyrir hönd félagsins þakka Jónasi Guðbjörnssyni vel unnin störf nú í nærri áratug fyrir HB Granda. Hann hefur reynst traustur og áreiðanlegur fjármálastjóri og lagt sitt af mörkum til þess góða fjárhags sem félagið býr við í dag," segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda hf.