Kamala Harris hyggst hækka tekjuskatt á lögaðila (e. corporate tax) úr 21% í 28% verði hún kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember næstkomandi. Kosningaskrifstofa hennar tilkynnti um þetta í gærkvöldi og gáfu til kynna að Harris hyggist fylgja í fótspor Biden í þessum málaflokki.
Kamala Harris hyggst hækka tekjuskatt á lögaðila (e. corporate tax) úr 21% í 28% verði hún kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember næstkomandi. Kosningaskrifstofa hennar tilkynnti um þetta í gærkvöldi og gáfu til kynna að Harris hyggist fylgja í fótspor Biden í þessum málaflokki.
Harris sagði í síðustu viku að hún stefni að því að lækka skatta fyrir millistéttina og þá einkum barnafjölskyldur, ásamt því að liðka fyrir íbúðakaupum fyrstu kaupenda. Þá tilkynnti hún um áform um að setja hömlur á verðlagningu í matvælaiðnaðinum.
Ef áform Harris yrðu að raunveruleika þá færi fyrirtækjaskatturinn í Bandaríkjunum upp fyrir sambærilegan skatt í Bretlandi, sem stendur í 25%, og yrði jafnframt með þeim hæstu meðal þróaðra ríkja að því er segir í frétt Financial Times.
Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikana, hefur gefið það út að hann stefni að því að lækka skatthlutfallið niður í 15%. Í forsetatíð Trump var settur á flatur 21% tekjuskattur á lögaðila árið 2017, en hann hafði áður verið allt að 35%.
Í umfjöllun FT segir að þrátt fyrir lækkun skatthlutfallsins þá séu skatttekjur af tekjuskatti lögaðila hærri í dag en fyrir breytingarnar, að hluta til vegna bættrar afkomu heilt yfir í atvinnulífinu.