Nasdaq Iceland hefur samþykkt beiðni líftæknilyfjafyrirtækisins Alvotech um töku hlutabréfa félagsins á íslenska aðalmarkaðnum með fyrirvara um samþykki skráningarlýsingar en bréfin eru í dag skráð á íslenska First North-markaðnum.

Tilkynnt verður um fyrsta viðskiptadag með hlutabréf Alvotech á aðalmarkaðnum með að minnsta kosti eins dags fyrirvara. Í tilkynningu Alvotech til Kauphallarinnar segir að hlutabréfin verði tekin til viðskipta á aðalmarkaðnum eftir að skráningarlýsing félagsins hefur verið flutt (e. passported) til Íslands.

Stjórn Alvotech samþykkti áætlun um að undirbúa skráningu á aðalmarkaðinn um miðjan ágúst síðastliðinn. Félagið tilkynnti svo á miðvikudaginn að það hefði lagt inn umsókn til Nasdaq Iceland.

Með skráningu á aðalmarkaðinn vill Alvotech ná til breiðari hóps fjárfesta og eiga möguleika á að vera meðal skráðra fyrirtækja hér á landi sem komast inn í nokkrar nýmarkaðsvísitölur hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell.

Alvotech var skráð í kauphöll í júní með tvískráningu á Nasdaq kauphöllina í Bandaríkjunum og First North markaðinn á Íslandi, sem alla jafna er ætlaður minni fyrirtækjum.