Útgerðarfélagið Brim hefur fjögurra vikna frest til að gera yfirtökutilboð í öll hlutabréf í HB Granda að því er Fréttablaðið greinir frá. Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá á miðvikudagskvöld , keypti Guðmundar Kristjánsson, í gegnum útgerðarfélag sitt Brim, nálega allan hluta Kristjáns Loftssonar í HB Granda.

Ásamt litlum hluta Halldórs Teitssonar, sem situr ásamt Kristjáni í stjórn HB Granda, hefur Guðmundur nú eignast 34,1% hlut í fyrirtækinu, að meðtöldum smáhlut sem hann átti fyrir. Guðmundur segist ekki hafa klárað alla fjármögnun kaupanna, en hann segist geta selt hlut af eignum Brims til að tryggja fjármagn ef til yfirtöku kemur.

„Maður má ekki bara kaupa og borga ekki upp,“ segir Guðmundur en Brim skuldaði 32 milljarða samkvæmt ársreikningi 2016 en eigið fé fyrirtækisins nam um 22 milljörðum króna.

Yfirtökuskylda ef kaupir meira en 30%

Í lögum um verðbréfaviðskipti er kveðið á um að ef keypt er meira en 30% hlutur í félagi myndist yfirtökuskylda, sem miðast við að vera að minnsta kosti jafnhátt og síðasta viðskiptaverð hluta í félaginu áður en tilboðsskyldan myndaðist.

Lokaverð viðskipta í kauphöllinni á miðvikudag var 30,20 krónur, en kaup Guðmundar á bréfunum miðuðust við 35 krónur á hvern hlut, sem er þá verðið sem yfirtökutilboðið þarf að miðast við að lágmarki. Það þýðir að hann þyrfti að greiða 42 milljarða fyrir restina af bréfunum í félaginu.

Guðmundur segist þó vonast til þess að sem flestir núverandi hluthafa verði áfram í eigendahópi HB Granda, því hann vilji ekki að Brim taki HB Granda alveg yfir. „Við þurfum að gera yfirtökutilboð innan fjögurra vikna, en við höfum hug á að halda HB Granda á markaði.“