Þrátt fyrir að verð á hrávörum hafi lækkað og að gengi krónunnar hafi styrkst upp á síðkastið virðist sem kaupmenn séu enn að ýta kostnaðarhækkunum út í verðlagið. Þetta segir greiningardeild Arion banka í umfjöllun sinni í dag um hækkun verðbólgunnar. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,63% í september frá fyrri mánuði og mælist ársverðbólga nú 5,7%. Greiningardeildin gerði ráð fyrir 0,4%-0,6% hækkun vísitölunnar.

Bent er á að verð á innlendum kjötvörum hefur rokið upp í verði. „Hækkun á matvörum sem og liðurinn tómstundir og menning skýra að mestu leyti frávikið frá okkar spá,“ segir í Markaðspunktum.

„Að mati greiningardeildar bendir ýmislegt til þess að heldur sé að hægja á verðbólguhraðanum og að væntar kostnaðarhækkanir hafi að mestu leyti komið fram. Eitt helsta áhyggjuefnið, sem endranær, verður hvort krónan muni haldast á svipuðu róli nú þegar helsta ferðamannatímabilinu lýkur. Hrávöruverðshækkanir virðast hafa látið staðar numið í bili a.m.k, og þrýstingur í raun skapast í hina áttina. Þetta eitt og sér mun á endanum skila sér í lægra hrávöruverði hér heima.“