Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) leggur fram breytingatillögu við fyrirliggjandi tillögu á hluthafafundi HB Granda varðandi kaup á fjórum félögum í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur (ÚR). Tillagan felur í sér að endalegt kaupverð verði tengt við afkomu næstu ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá LV.

Í tilkynningunni segir að tillagan feli í sér að gangi áætlanir seljanda eftir verður umsamið kaupverð greitt að fullu en ella kemur til lækkunar þess. Nánari útfærsla verði í höndum stjórnar HB Granda sem, ef tillagan verður samþykkt, verður falið að móta tillögu fyrir hluthafafund.

„Að öðru leyti telur sjóðurinn að sölufélögin falli vel að rekstri HB Granda og að þau séu í samræmi við yfirlýsta stefnu þess um eflingu sölu- og markaðsstarfs. Þetta er niðurstaða sjóðsins eftir greiningu á fyrirliggjandi gögnum,“ segir í tilkynningunni.

Hluthafafundurinn fer fram síðar í dag. Áður hefur komið fram að lífeyrissjóðurinn Gildi hyggist greiða atkvæði gegn tillögunni.