Kínverska sendiráðið á Íslandi ásamt félagi Kínverja á Íslandi styrktu Þekkingarsetur Vestmannaeyja og mjaldrasysturnar Litlu Grá og Litlu Hvít. He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi ásamt David Tong Li færðu Þóru Gísladóttur, framkvæmdastjóra setursins, styrkinn við hátíðlega athöfn í gær.

Mjaldrarnir fluttu aftur heim til Íslands árið 2019 eftir að hafa dvalið í Kína í meira en áratug og segir Þóra að Kínverjar séu enn mjög duglegir að fylgjast með systrunum og eru tíðir gestir á setrinu.

„Þetta er mjög skemmtilegt og við erum ótrúlega þakklát fyrir þennan styrk frá þeim. Kínverska sendiráðið hefur alltaf styrkt okkur mjög vel með annaðhvort heimsóknum eða góðri umfjöllun í gegnum árin.“

Litla Grá og Litla Hvít voru í sædýragarðinum Changfeng Ocean World í Sjanghæ í Kína í 12 ár.

Litla Grá og Litla Hvít voru í sædýragarðinum Changfeng Ocean World í Sjanghæ í Kína í 12 ár og bera Kínverjar því enn mjög mikla hlýju í garð mjaldranna. „Kínverjar koma reglulega í heimsókn til þeirra og færa þeim jafnvel gjafir. Það er bara búið að vera rosalega gott samband milli okkar og kínversku þjóðarinnar.“

Þóra segir að kínverska sendiráðið hafi haft samband við setrið á menningardegi sendiráðsins, sem haldinn var fyrr í mánuðinum, til að kanna hvort það væri hægt að hendast í söfnun fyrir systurnar.

„Þau vita náttúrulega að við erum bara pínu lítið góðgerðafélag sem er ekki með mikið á milli handanna en við þurfum að sjá um rekstur þessara hvala og þegar þeir éta 60 kíló á dag, þá getur það verið frekar mikið.“

Þóra bætir við að fjárhagslega aðstoðin sé ómetanleg fyrir setrið og muni koma til með að hjálpa Litlu Grá og Litlu Hvít í vetur þegar ferðamannastraumurinn fer að minnka.