Framkvæmdir við uppbyggingu á Skerjahverfi, nýju íbúðahverfi í Sandgerði í Suðurnesjabæ, hófust í lok apríl síðastliðins. Gert er ráð fyrir alls 136 íbúðum í hverfinu. Stefnt er að því að úthluta fyrstu lóðum til bygginga síðsumars eða í byrjun næsta hausts. Framkvæmdin var nýlega boðin út og hefur Suðurnesjabær samið við Ellert Skúlason ehf. um hana.

Jón Ben Einarsson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Suðurnesjabæjar.
Jón Ben Einarsson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Suðurnesjabæjar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Mikil eftirspurn hefur verið eftir íbúðalóðum í Suðurnesjabæ, bæði í Garði og Sandgerði, og framboð af lausum lóðum er nú takmarkað. „Við erum í raun orðin lóðalaus í Sandgerði,“ segir Jón Ben Einarsson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Suðurnesjabæjar.

Deiliskipulag Skerjahverfis gerir ráð fyrir samtals 136 íbúðum, þar af 33 íbúðum í fjölbýli og 103 íbúðum í sérbýli. Sérbýlisíbúðir skiptast í 35 íbúðir í raðhúsum, 27 íbúðir í keðjuhúsum, 18 íbúðir í parhúsum og 23 íbúðir í einbýlishúsum. Framkvæmdirnar við Skerjahverfi eru áfangaskiptar, en í fyrsta áfanga uppbyggingarinnar er gert ráð fyrir 64 íbúðum.

Jón segir að fyrstu drög að Skerjahverfinu hafi verið lögð fyrir nokkrum árum síðan en ekki hafi verið ráðist í framkvæmdir fyrr en nú þar sem fasteignamarkaðurinn var nokkuð rólegur árin eftir hrun. Um hundrað auðar íbúðir voru lausar í sitthvorum byggðakjarnanum, Sandgerði og Garði, fyrir rúmum fimm árum en nú sé farið að vanta lóðir á ný.

„Eftirspurnin er búin að vera með ólíkindum síðastliðin tvö ár,“ segir Jón. „Það er gríðarleg ásókn í lóðir fyrir minni parhús og raðhús.“

Fasteignamat á íbúðarhúsnæði í Suðurnesjabæ hækkaði um 17,8% árið 2020, þar af hækkaði sérbýli um 18,5% og fjölbýli um 8,3%. Jón telur að hækkunin skýrist að einhverju leyti af því að munurinn á fasteignamatinu á Suðurnesjunum og höfuðborgarsvæðinu hafi verið orðinn nokkuð mikill. Auk þess virðist umhverfið á lánamarkaðnum gera ungu fólki auðveldara fyrir að kaupa fyrstu fasteign, m.a. vegna hlutdeildarlána, sem hafi hleypt miklu lífi í markaðinn. Einnig nefnir hann að töluvert sé um að fólk frá höfuðborgarsvæðinu sæki í lægra fasteignaverð og rólegra umhverfi.

„Fólk minnkar gjarnan við sig og kaupir ódýrari eign en þó með svipuð gæði og áður. Þannig hafa sumir losað pening til að nota á eftirlaunaaldri,“ segir Jón. Hann bætir við að eftir flutninga uppgötvi fólk að vegalengdin í borgina sé ekki óskapleg. „Við segjum gjarnan hérna á Suðurnesjum að það sé miklu lengra fyrir Reykvíkinga að koma á Suðurnesin heldur en fyrir Suðurnesjamenn að fara til Reykjavíkur.“

Aldrei upplifað svona ástand

Atvinnuleysi hefur aukist verulega á Suðurnesjum undanfarið ár, sér í lagi vegna fækkun ferðamanna á Keflavíkurflugvelli, og nam tæpum 25% í mars samkvæmt Vinnumálastofnun. Spurður hvort atvinnuleysið hafi leitt til fólksflutninga úr sveitarfélaginu, telur Jón svo ekki vera.

„Það er svo skrýtið að byggingariðnaðurinn hefur blómstrað og verið nóg að gera hjá öllum verktökum. Það hefur ekkert verið slegið af, nema síður sé, á byggingum, hvort sem það er íbúðarhúsnæði eða annars konar húsnæði. Ég er nú búinn að upplifa nokkrar efnahagslægðirnar hérna á minni lífsgöngu en ég man ekki eftir svona niðursveiflu þar sem byggingariðnaðurinn þarf ekki að vera með fyrstu greinunum til að blæða. Menn klóra sér stundum í hausnum yfir þessu,“ segir Jón.

Hann bendir þó á að vextir séu lágir og ríkisstjórnin hefur gripið til aðgerða til að koma til móts við unga húsnæðiskaupendur sem haldi lífi í markaðnum.

Garður næstur

Að undanskildu Skerjahverfinu, eru núna 64 íbúðir í byggingu í Suðurnesjabæ, þar af 27 í Sandgerði og 37 í Garði, og fleiri að fara í gang. Jón segir að ef fram heldur sem horfir hvað varðar eftirspurnina þá þurfi sveitarfélagið að halda vel á spilunum til að hafa nægjanlegt framboð af lóðum.

Spurður um önnur fyrirhuguð verkefni, segir Jón að næst verði horft til áframhaldandi íbúðaskipulags í Garði. Hann nefnir í þeim efnum Teiga- og Klappahverfi þar sem gert er ráð fyrir rúmlega 200 íbúðum. Búið er að skipuleggja og byggja upp helming af hverfinu og nú verður farið að huga að skipulagi seinni hluta hverfisins.

Jón hefur fulla trú á að sveitarfélagið geti staðið undir ásókninni í íbúðir. „Við teljum okkur hafa alla innviði til fjölgunar. Við erum ágætlega í sveit sett varðandi skóla og íþróttaaðstöðu, þessa innviði sem fjölskyldufólk sækir í. Það er einnig frítt í sund hérna fyrir alla bæjarbúa,“ segir hann að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .