Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til tíu ára í Bretlandi hefur hækkað töluvert á síðustu dögum meðan skuldabréfafjárfestar í Lundúnum bíða eftir fjárlögum Rachel Reeves fjármálaráðherra Bretlands.
Samkvæmt viðskiptablaði The Guardian er búist við því að Reeves muni auka lántökuáætlun ríkisins í fjárlögum og hefur ávöxtunarkrafa tíu ára bréfa ekki verið hærri síðan í júlí.
Krafan stóð í 4,02% á föstudaginn og er í kringum 4,24% um þessar mundir en þegar krafan hækkar lækkar virði bréfanna.
Hreyfingar á skuldabréfamarkaði komu í kjölfarið að því að Ben Nabarro aðalhagfræðingur Citigroup sagði opinberlega að hann óttaðist „kaupenda- verkfall“ (áhlaup á ríkisskuldabréf) ef Reeves myndi skyndilega ákveða að auka lántöku.
Reeves hefur verið að velta því fyrir sér á síðustu dögum hvort það sé hægt að endurreikna skuldir ríkissjóðs með því að bókfæra vegi, skóla og spítala sem eignir hjá ríkinu.
Hún telur að með þessum útreikningum verði hægt að auka svigrúm ríkissjóðs til lántöku um 50 milljarða punda án þess að brjóta lög um opinber fjármál.
„Ef reglunum verður breytt með þeim hætti sem Reeves er að íhuga, þá aukast líkurnar verulega á kaupenda-verkfalli,“ sagði Nabarro í gær.
Ávöxtunarkröfur annarra ríkisskuldabréfa svo sem í Þýskalandi og Bandaríkjunum hafa einnig verið að hækka í dag en með engu móti á sama hraða og í Bretlandi.