Krónan veiktist um yfir 1% gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum í dag og miðað við gengisvísitölu féll hún um tæp 1,3%. Mest féll gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal, um 1,86%, sem er það mesta á einum degi síðan í nóvember í fyrra, en hver dalur kostar nú 139,3 krónur samkvæmt tölum Seðlabankans.
Krónan féll einnig um ríflega 1,5% gagnvart japanska jeninu, en af þeim gjaldmiðlum sem Íslendingar stunda mest viðskipti með var veikingin rúm 1,2% gagnvart bæði evru og danskri krónu, og rétt yfir 1% gagnvart Sterlingspundinu breska.
Gengisvísitalan sýnir nú um 4% veikingu frá hágildi sínu fyrir um þarsíðustu mánaðarmót og var síðast veikari snemma í júlí í sumar. Veikingin samkvæmt vísitölunni í dag er sú mesta á einum degi síðan í lok mars.
Veiking krónunnar gagnvart dollaranum nemur nú um 7,2% frá sterkasta gildi hennar um miðjan júlí þegar hún náði naumlega að brjótast niður fyrir 130 krónur á dollara samkvæmt skráningu seðlabankans, nánar tiltekið 129,99 krónur þann 18. júlí.
Dollarinn hefur verið að styrkjast nýverið í kjölfar vaxtahækkana þar í landi sem gert hafa fjárfestingakosti – sér í lagi ríkisskuldabréf – að meira aðlaðandi kosti en þau hafa verið lengi.