UNICEF á Íslandi og Kvika banki undirrituðu í síðustu viku tveggja ára samstarfssamning. Frá árinu 2011 hefur Kvika verið aðalsamstarfsaðili UNICEF á Íslandi á sviði bankaþjónustu en auk þess er Kvika sérstakur velunnari Heimsforeldra.
Það voru Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og Fríða Ásgeirsdóttir, forstöðumaður markaðsmála hjá Kviku, sem undirrituðu samninginn sem gildir til næstu tveggja ára.
„Kvika tekur virkan þátt í samfélaginu með styrkjum til margvíslegra málefna sem styðja við þau Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem bankinn hefur sett í forgrunn. Síðustu 12 ár höfum við verið aðalstyrktaraðili UNICEF á Íslandi, en UNICEF hefur verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum,“ segir Fríða Ásgeirsdóttir, forstöðumaður markaðsmála hjá Kviku.
Í tilkynningu segir að Kvika niðurgreiði bankakostnað Heimsforeldra og geri UNICEF á Íslandi þannig kleift að nýta söfnunarfé sitt betur í þágu réttinda og velferðar barna um allan heim. Kvika veitir UNICEF bestu mögulegu kjör á bankaþjónustu og skuldbindur sig til að styðja við rekstur og fjáröflun UNICEF á Íslandi, bæði með beinum framlögum og öðrum samstarfsleiðum.
Á Íslandi eru um 25.000 heimsforeldrar og eru þeir hvergi hlutfallslega fleiri en hér á landi.
„Það er mikilvægt fyrir starfsemi UNICEF á Íslandi að hafa traustan bakhjarl í bankaþjónustu, sem tryggir okkur hagstæðustu mögulegu kjör og góða þjónustu. Slíkt samstarf gerir okkur kleift að nýta fjármagn og tíma betur í verkefni UNICEF fyrir öll börn um allan heim,“ segir Birna Þórisdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Á síðastliðnum árum hefur Kvika auk þess stutt við ýmis verkefni UNICEF á Íslandi og má þar nefna Dag rauða nefsins, neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen og Stöðvum feluleikinn, átak UNICEF gegn ofbeldi gegn börnum á Íslandi.