LBG Media Plc, móðurfélag netmiðilsins LADbible, var skráð á hlutabréfamarkað í London í vikunni en félagið var stofnað árið 2012 af tveimur breskum háskólanemum. Útboðsgengi hlutabréfa félagsins nam 1,75 pundum en er skammt var liðið á fyrsta viðskiptadag bréfa félagsins hafði gengið hækkað um 11%, upp í 1,95 pund. Í kjölfarið nam markaðsvirði þess 360 milljónir punda, eða sem nemur 62,5 milljörðum króna.

Félagið safnaði alls 30 milljónum punda í hlutafjárútboði fyrir skráningu á AIM markaðinn í London sem ætlaður er litlum og meðalstórum vaxtarfyrirtækjum.

Fyrr í þessum mánuði var bandaríski netmiðillinn BuzzFeed, sem er áþekkur LADbible, skráður á markað vestanhafs. Þegar þetta er skrifað nemur markaðsvirði BuzzFeed 768 milljónir dala, eða sem nemur tæplega 100 milljörðum króna.