Christine Lagarde, forseti Seðlabanka Evrópu, kallaði eftir því í ræðu í morgun að komið yrði á fót evrópskri eftirlitsstofnun í líkingu við Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna (e. SEC). Financial Times greinir frá.

Sameinað verðbréfaeftirlit myndi hafa meira bolmagn og hjálpa þannig Evrópuríkjum að takast á við krefjandi áskoranir vegna afhnattvæðingar (e. deglobalization), breyttrar aldurssamsetningar þjóða, og afkolunar (e. decarbonisation) að sögn Lagarde.

Lagarde, sem tók við embætti forseta Seðlabanka Evrópu árið 2019 og var þar áður framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, kallaði eining eftir samþjöppun meðal kauphalla í Evrópu.

„Sannur evrópskur fjármagnsmarkaður þarf samþjappaða fjármálainnviði – og einkageirinn getur sýnt staðfestu sína hvað þetta varðar líka,“ sagði Lagarde á evrópsku bankaráðstefnunni í Frankfurt í morgun.