Flugfélagið Play tók í sumar við sinni tíundu farþegaþotu og er nú með sex Airbus A320 vélar og fjórar A321 vélar. Félagið tilkynnti einnig nýlega að það hefði tryggt sér tvær Airbus A320neo þotur fyrir árið 2025 sem mun stækka flotann í 12 þotur.
Á upplýsingafundi Play á fimmtudaginn kom fram að félagið væri með til skoðunar að stækka flota sinn upp í 14 vélar árið 2025.
„Við erum í, skulum við segja, lauslegum viðræðum um að bæta við öðrum tveimur en ætlum bara að stökkva á það ef kjörin eru rétt og markaðsaðstæður hagfelldar,“ sagði Birgir Jónsson, forstjóri Play á fundinum.

Skoða blautleiguvél fyrir næsta sumar
Birgir lýsti því að stækkun flotans upp í tíu vélar hefði reynst krefjandi fyrir félagið á fyrri hluta þessa árs. Horft væri til þess að Play myndi nýta næsta ár til að ná fram hagræðingu í rekstrinum og ná vopnum sínum aftur. Félagið væri þó með til skoðunar að fá eina vél á blautleigu (e. wet-lease) fyrir næsta sumar.
„Við ætlum að láta markaðinn segja okkur það. Þá er ég að tala um lendingarleyfi (e. slot) á flugvöllum og horfur á neytendamarkaði,“ sagði Birgir.
Play væri þá að horfa til þess að fá blautleiguvélina inn í kringum maí 2024 og vera með hana út októbermánuð. Vélin yrði þá tekin að leigu frá erlendu flugfélagi en með áhöfn Play um borð.
„Hún kæmi þá inn á þessari háönn og við myndum losna við hana á lágönninni sem er kannski erfiðari. Þetta náttúrulega snýst um að reyna að hámarka afkomuna á sumrin og reyna að lágmarka tapið á veturna í þessum frábæra rekstri.“
