Halldór Kristmannsson, einn stærsti hluthafi fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins Sýn, leggur til að félagið selji vefmiðla og útvarpsstöðvar sínar til samkeppnisaðilans Símans. Umræddir fjölmiðlar „smellpassi“ að hans mat við nýtt tekjusvið Símans.
„Ég skora á stjórnir fyrirtækjanna að hefja formlegt samtal um kaup Símans á vefmiðlum og útvarpsstöðvum,“ segir Halldór í aðsendri grein á vb.is.
Halldór Kristmannsson, einn stærsti hluthafi fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins Sýn, leggur til að félagið selji vefmiðla og útvarpsstöðvar sínar til samkeppnisaðilans Símans. Umræddir fjölmiðlar „smellpassi“ að hans mat við nýtt tekjusvið Símans.
„Ég skora á stjórnir fyrirtækjanna að hefja formlegt samtal um kaup Símans á vefmiðlum og útvarpsstöðvum,“ segir Halldór í aðsendri grein á vb.is.
Segir Sýn í sterkri stöðu í viðræðum með Enska boltann
Síminn keypti í ár þrjú félög á auglýsingamarkaði – Billboard, BBI og Dengsa. Halldór telur að með kaupunum sé Síminn í góðri stöðu í sölu birtinga á auglýsingaskiltum og að samruni við fjölmiðla vefmiðla og útvarpsstöðvar Sýnar myndi gera Símanum kleift að þjónusta viðskiptavini á enn breiðari grunni.
„Jafnframt er mikilvægt fyrir Símann að ná samkomulagi við Sýn um sýningarrétt á völdum leikjum í enska boltanum til að verja áskriftargrunn sinn. Sýn hefur ákveðið „leverage“ í þeim viðskiptum þar sem ekkert samkomulag hefur verið gert eða handsalað, eftir því sem ég kemst næst.“
Sýn tilkynnti í nóvember 2023 um að fjölmiðlaeignum félagsins hefði verið skipt upp í tvær rekstrareiningar, annars vegar Vefmiðla og útvarp og hins vegar Stöð 2. Rekstrareiningin „Vefmiðlar og útvarp“ heldur utan um Vísi, útvarpsstöðvarnar Bylgjuna, FM957 og X-ið, Já.is og Blandi.is.
Sýn ákvað í lok síðasta árs að taka framtíðar eignarhald rekstrareiningarinnar til frekari skoðunar. Í apríl síðastliðnum ákvað félagið hins vegar að falla frá þessum áformum.
Halldór er þó enn þeirrar skoðunar að Sýn eigi að skoða sölu á vefmiðlum og útvarpsstöðvum félagsins. Hann telur að virði rekstursins sé um eða yfir 8 milljarðar króna, sem sé svipað og markaðsvirði Sýnar í Kauphöllinni.
„Viðskipti Símans með skiltafyrirtæki byggðu á sambærilegum kennitölum og hægt er að sjá fyrir sér umtalsverð samlegðartækifæri, gangi samruni eftir.“
Þá telur Halldór að rekstur Stöðvar 2 eigi heima utan Sýnar og að félagið eigi að fá þriðja aðila til að annast viðskipti og endursölu með sýningarrétti og framleiða innlent dagskrárefni.
Vill sameina Vodafone og Heimkaup
Halldór fjárfesti í Skel fjárfestingarfélagi í ágúst síðastliðnum í gegnum félagið sitt, Aviva Invest ehf., og er nú meðal tuttugu stærstu hluthafa Skeljar.
Í greininni nefnir Halldór sérstaklega Heimkaup og Orkuna, dótturfélög Skeljar, og fyrirhugaðan samruna þess við Samkaup. Undir Heimkaupum er m.a. rekstur Prís og Lyfjavals.
Halldór telur að Skel horfi til þess að viðskiptamódel sameinaðs félags „tikki í sömu boxin“ og Hagar og Festi á sviði matvöru, orku og lyfja.
„Ég sé gullið tækifæri fyrir Skel að „hugsa út fyrir kassann“ ef svo má segja og vera á undan Högum og Festi í því að sameina fjarskipta- eða öryggisþjónustufyrirtæki inn í sinn rekstur.
Þar sem ég er meðal stærri hluthafa í bæði Sýn og Skel, horfi ég sérstaklega til sameiningar Samkaupa, Heimkaupa, Orkunnar og annarra vörumerkja í eigu Heimkaupa; Lyfjavers, Prís og Löðurs, við Vodafone.“
Með samruna við Vodafone skapist tækifæri til að einfalda heimilisbókhald landsmanna og lækka rekstrarkostnað.