Í frétt í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins á fimmtudag um rekstur hugbúnaðarfyrirtækisins Wise í fyrra var því ranglega haldið fram að félagið hefði sameinast Netheimi, og er það hér með leiðrétt. Hið rétta er að samruni hugbúnaðarfyrirtækjanna, sem tilkynnt var um í mars í fyrra, gekk þegar á hólminn var komið ekki í gegn, og fyrirtækin starfa enn sitt í hvoru lagi í dag.

Eins og fram kom í upphaflegu samrunatilkynningunni tóku nýir eigendur við Wise í ársbyrjun 2020 og hefur samkvæmt ársreikningi síðasta árs mikil endurskipulagningar- og uppbyggingarvinna staðið yfir síðan þá.

Uppbyggingin er sögð hafa falist í breikkun vöruframboðs og meðal annars falið í sér kaup á félögum, meðal annars CoreData Solutions ehf. sem félagið keypti í heild sinni í lok síðasta árs og mat á 200 milljónir króna í bókum sínum í árslok.

Þá er áðurnefnd endurskipulagning tiltekin sem liður uppbyggingarinnar, auk fjárfestingar í vöruþróun sem sögð er munu skila félaginu auknum tekjum þegar fram líða stundir, sér í lagi í formi áskriftartekna fyrir hugbúnað félagsins.