Af 665 kaupsamningum um íbúðir á höfuðborgarsvæðinu í maí voru 74 um nýjar íbúðir eða 11,1%. Hlutfallið er sögulega lágt en leita þarf aftur til ársins 2017 til að finna álíka hlutdeild nýrra íbúða af seldum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, að því er segir í nýrri mánaðarskýrslu HMS.
Hlutdeildin var 17-20% frá júní til nóvember í fyrra, en hefur lækkað talsvert það sem af er ári. Íbúð telst vera ný ef byggingarár er innan við tveimur árum frá útgáfudegi kaupsamnings.

Í upphafi júlímánaðar voru 4.830 íbúðir til sölu á landinu öllu, þar af 1.869 nýjar íbúðir, og fjölgaði um 222 íbúðir í júní. Um 3.000 íbúðir eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu.
„Framboðsaukning íbúða í júní var drifin áfram af nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Um 1.400 nýjar íbúðir voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu í upphafi júlímánaðar og hafa þær ekki verið fleiri frá upphafi mælinga 2018. Til samanburðar voru um 1.200 nýjar íbúðir til sölu í byrjun júnímánaðar.“
Í byrjun júlímánaðar voru um 45% íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu nýjar, en hlutdeild nýrra íbúða í framboði var um 36% í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og um 20% annars staðar á landsbyggðinni.
Samkvæmt HMS er hlutdeild nýrra íbúða í framboði innan einstaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hæst í Hafnarfirði eða 70% en þar eru um 500 nýjar íbúðir til sölu.
77% ólíklegri til að seljast á innan við 60 dögum
Niðurstöður greiningar HMS benda til þess að nýjar íbúðir eru 77% ólíklegri til að seljast á innan við 60 dögum en notaðar íbúðir, að öðru óbreyttu, þ.e. að gefnu því hvort íbúðirnar séu stórar, meðalstórar eða litlar og hvort þær séu dýrar eða ódýrar.
Dýrar íbúðir séu aftur á móti um 52% ólíklegri til að seljast á innan við 60 dögum frá upphafi sölutilraunar samanborið við ódýrar íbúðir, að öðru óbreyttu. Þá séu meðalstórar íbúðir jafnframt um 26% ólíklegri til að seljast á innan við 60 dögum samanborið við litlar íbúðir, að öðru óbreyttu.
