80% félagsmanna Félags atvinnurekenda (FA), sem svöruðu könnun félagsins í síðustu viku, sjá fram á að þurfa að hækka verð vegna hækkana á erlendum aðföngum. Þetta kemur fram í frétt á vegum FA í gær.
78% svarenda segjast þegar hafa þurft að hækka verð, en könnunin var gerð dagana 31. janúar til 4. febrúar. Hún var send með tölvupósti til 163 félagsmanna með beina félagsaðild og var svarhlutfall könnunarinnar 35%.
Sjá einnig: Miklar verðhækkanir framundan
Hermann Guðmnundsson, forstjóri heildsölufyrirtækisins Kemi, sagði í samtali við Viðskiptablaðið á dögunum miklar verðhækkanir framundan. Verðhækkanir erlendra birgja væru svo miklar að erfitt væri að hagræða til að koma í veg fyrir verðhækkanir.
Um 90% þeirra félagsmanna sem svöruðu könnun FA sögðu að verð á erlendum aðföngum til fyrirtækisins hefði hækkað vegna hækkana á alþjóðamörkuðum. Einungis 2% voru ósammála því að verð frá erlendum birgjum hefði hækkað.
Í könnuninni voru félagsmenn einnig spurðir hvaða svigrúm þeir töldu til launahækkana í kjarasamningum síðar á árinu. Rúmlega helmingur þeirra félagsmanna sem svöruðu könnuninni telur ekkert svigrúm til launahækkana. Rúmlega þriðjungur telur svigrúmið vera á bilinu 2-3%. Mikill minnihluti svarenda telur að svigrúm sé til launahækkana umfram 3%. Að meðaltali töldu fyrirtækin sem svöruðu könnuninni svigrúm til 1,4% hækkunar launakostnaðar.