Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og fyrrum forstjóri Sýnar, ræddi um samband sitt við Peter Thiel í nýjasta hlaðvarpsþætti Pyngjunnar. Heiðar gerir seðlabanka að sérstöku umræðuefni en hann segist einmitt hafa unnið með Thiel skömmu eftir fjármálahrunið við að leggja drög að nýjum seðlabanka, óháðum nokkru þjóðríki.

Peter Thiel er hvað þekktastur fyrir að vera einn af stofnendum PayPal og Palantir Technologies ásamt því að hafa fjárfest í Facebook árið 2004 fyrir 500 þúsund dali í skiptum fyrir 10,2% hlut. Thiel er meðal 650 ríkustu einstaklinga heims, samkvæmt rauntímalista Forbes, en auðæfi hans eru metin á 4,2 milljarða dala eða sem nemur rúmum 600 milljörðum króna.

Heiðar segist hafa komist fyrst í kynni við Thiel árið 2003 og hitt hann aftur í nokkur skipti næstu tvö árin. Árið 2009 hætti Heiðar hjá fjárfestingarfélaginu Novator, flutti til Sviss og hóf að vinna með Thiel og sameiginlegum vini þeirra hjá Clarium.

„Þá er ég að vinna í svona pælingum í viðskiptaáætlun með þessum tveimur mönnum í að búa til nokkurs konar nýjan seðlabanka.“

Hugmyndin hafi verið að búa til hrávöru- eða próteinfót fyrir nýjan gjaldmiðil, sem fæli í sér að hægt væri að innleysa viðkomandi gjaldmiðil fyrir ákveðið magn af olíu eða prótein sem dæmi. Með þessu fyrirkomulagi sé ekki hægt að misnota seðlaprentunarvaldið að sögn Heiðars.

„Ég á þetta viðskiptaplan einhvers staðar. Ég hef enn þá trú á þessu vegna þess að þjóðargjaldmiðlar - sérstaklega núna eftir fjármálaáfallið sem reið yfir heimsbyggðina árið 2008 – þá eru seðlabankar heimsins ekki lengur sjálfstæðir.

Það er eiginlega búið að sameina fjármálaráðuneyti allra landa og seðlabanka. Við sjáum bara hvað ríkisskuldir hafa aukist og hvernig seðlabankar í dag þurfa að haga sér algjörlega eftir ákalli fjármálaráðherranna og ríkisstjórnanna.“

Heiðar segir að í ljósi þessarar stöðu sé þörf á gjaldmiðli sem er ótengdur stjórnmálunum og hvers konar þjóðarhagsmunum. „Það þarf bara alþjóðlegan gjaldmiðil sem passar upp á það fyrst og fremst að varðveita verðgildi sitt.“

Ekki hrifinn af rafmyntum

Spurður um hvort hann sé þá hrifinn af rafmyntum vegna hugmyndafræði þeirra um valddreifingu (e. decentralization), svarar Heiðar neitandi sökum þess hversu orkufrekar þær eru. Rafmynt sem stæði á orkufæti, sem gæfi fjárfestum í raun möguleika á að geyma orku, gæti þó orðið framúrskarandi mynt.

„Eins og við sjáum núna, það var sagt fyrir það fyrsta að þetta væri svo fullkomið að það væri ekki hægt að stela þessari mynt, ekki hægt að falsa hana. Núna er hver kauphöllin og hvert utanumhaldið af öðru að brotna vegna þess að það er verið að misfara með þessi verðmæti. Þannig að það sem átti að gefa þessu trúverðugleika, það er ekki til staðar.“

Seldu PayPal eftir afskipti FBI

Árið 2002 var PayPal selt til eBay á 1,5 milljarða dala. Heiðar segir söguna af sölunni sem hann heyrði frá Thiel. PayPal hafði þá verið að þróa nýja mynt sem hét GLD, sem var í raun inneign á netinu sem hægt var að nota í netviðskiptum. Þeir hafi svo viljað setja gjaldmiðilinn á greiðslukort.

„Þá er bankað upp hjá þeim. Það er alríkislögreglan. Sem sagt, bandaríski seðlabankinn hafði kært þá vegna þess að það er einkaréttur á útgáfu peninga. Það var sagt við þá að það væri nú verið að nota GLD, þessa mynt þeirra, til þess að eiga ýmis ólögleg viðskipti á netinu; kaupa vændi, stunda fjárhættuspil, kaupa þýfi.

Þeir sögðu: Fyrirgefðu, ef þið eruð að leita að vinsælasta og eftirsóttasta gjaldmiðli glæpamanna þá ættuð þið að líta ykkur nær, vegna þess að það er Bandaríkjadollar.“

Eftir aðför alríkisins hafi þeir gert sér grein fyrir þeim hagsmunum sem voru undir enda væri einkaréttur á útgáfu peninga hornsteinn í völdum ríkisins. Þeir hafi þá séð sitt óvænna og selt PayPal til eBay.

„Hornsteinn kúgunar“

Þáttastjórnendur Pyngjunnar komu Heiðari á bragðið síðar í þættinum með að spyrja um hvort hann sjái einhverja kosti við íslensku krónuna.

„Nei. Þetta snýst um það: Er fólk stjórnlynt eða er það frjálslynt? Ég bara treysti fólki fyrir að fara með eigið fé. Þó að ég kunni fótum mínum forræði í fjármálum, þá er ég ekki það uppfullur af sjálfum mér að ég ímynda mér hvað er hverjum og einum fyrir bestu, að ég taki af þeim völdin.“

Hann ítrekaði skoðun sína að seðlabankar og þjóðargjaldmiðlar séu „hornsteinn kúgunar“ ríkisins á þegnum sínum. Með þessu fyrirkomulagi sé verið að búa til tangarhald, sem hafi sem dæmi brotist út núna með hárri verðbólgu.

„Seðlabankar eru langt á eftir í að keppa við verðbólguna, vegna þess að þeir vilja gjarnan að það sé 5%-7% verðbólga [...] Þarna er verið að færa eignir frá þeim sem hafa sparað til hinna sem hafa sólundað. Mér finnst ekkert réttlæti í þessu.“

Krónan ónýtur gjaldmiðill við verðtrygginguna

Heiðar bætir þó við að þetta eigi ekki við um Ísland vegna hás hlutfalls verðtryggingar hér á landi, ólíkt öðrum ríkjum.

„Á meðan við erum með verðtryggingu, þá erum við með öðrum orðum með ónýtan gjaldmiðil vegna þess að hann stendur ekki jafnfætis öðrum. Hann hefur þessa hækju alltaf til að styðja sig við. Það er náttúrulega bara meiriháttar galli.

En svo eru sumir sem eru stjórnlyndir og sem hugsa: „Það er bara gott að geta miðstýrt kerfinu. Það er rosa gott að geta fellt gengið og breytt þessu og hinu, breytt peningamagni í umferð, dregið úr því. Tala nú ekki um að setja FME inn með Seðlabankanum, þá fáum við enn þá meiri miðstýringu. Bönnum bara öllu ungu fólki að kaupa sér fasteign“ – einhverjar svona furðuhugmyndir sem koma fram, sem væru óframkvæmanlegar ef við hefðum ekki íslensku krónuna.“

Heiðar telur einfaldlega að ef gjaldmiðlar eru ekki alþjóðlegir „þá er eitthvað að þeim“. Svissneski frankinn hafi sem dæmi orðið að alþjóðlegri mynt þó að Sviss sé ekki stórt hagkerfi vegna þess að passað hafi verið upp á verðgildi hans og menn treysti honum í óvissu. Það hafi tekist með góðum seðlabanka og góðri efnahagsstjórn.

„Á meðan evran, með 27-28 ríki á bak við sig, sem öll eru með sitthvor fjárlögin, mun aldrei ná því.“

Eins og að tala illa um loftslagsmarkmiðin

Heiðar, sem hóf störf á fjármálamarkaði að loknu grunnnámi í háskóla, segir að þrátt fyrir að hann sé að mestu sjálfmenntaður hagfræðingur og ekki með doktorsgráðu, þá hafi honum verið að boðið að tala hjá World Economic Forum og G20 á lokuðum fundum seðlabankastjóra.

„Ég hef nú oft næstum því komið mér út úr húsi á þeim fundum með því að tala bara opinskátt í þessum hópi um hvað mér finnst hvernig seðlabankar eru að vinna. Það var þetta ofmat seðlabanka á sjálfum sér. Þeir trúðu því að það þyrfti bara eitt markmið og eitt tæki, þá myndi allt ganga upp. Þetta var einhver svona villitrú sem menn höfðu frá 1995 til 2008. Svo er sú trú fokin út í veður og vind.

En þegar maður dirfðist til að mynda árin 2005-2007 að gagnrýna þetta, það var bara eins og guðspjall. Þetta er eins og í dag að tala illa um loftslagsmarkmiðin, það bara má ekki. Það er alls konar svona viðtekin trú sem er rosa þægilegt að hafa en þegar betur er að gáð, þá gengur hún ekki upp. Fólk þarf að vera með gagnrýna hugsun.

Ef ég til að mynda hef ekki trú á loftslagsmarkmiðum, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, hef ekki trú á seðlabönkum, hvers vegna á einhver að skipa mér að hafa þá trú? Hvers vegna á einhver að skipa mér að fjárfesta með þeim hætti frekar en einhverjum öðrum? Er ekki hollara fyrir hagkerfið að það séu mismunandi hugmyndir þannig að þegar eitthvað kemur upp á og eitthvað breytist, þá séu ekki allir með sömu stöðurnar á sama stað á sama tíma?“