Gervigreindarskrum réð lofum og lögum á markaði í Bandaríkjunum í gær eftir að Microsoft greindi frá ráðningu Sam Altman, stofnanda og fyrrum forstjóra OpenAI, í gær.
Satya Nadella, forstjóri Microsoft, tilkynnti að Altman og Greg Brockman, annar meðstofnandi OpenAi, myndu ganga til liðs við Microsoft til að hjálpa við þróun á gervigreind innan fyrirtækisins.
Gengi Microsoft hækkaði um 2,1% og var dagslokagengið 377,4 bandaríkjadalir.
Dagslokagengi Microsoft hefur aldrei verið hærra en markaðsvirði fyrirtækisins er nú um 2800 milljarðar Bandaríkjadala, eða 390 þúsund milljarðar íslenskra króna.
Gengi tæknirisans hefur hækkað um 58% á árinu og má búast við frekari hækkunum þegar markaðir opna vestanhafs í dag.
S&P 500 hækkað um 18% á árinu
S&P 500 vísitalan fór upp um 0,7% í gær á meðan Nasdaq Composite, þar sem tæknifyrirtækin í Bandaríkjunum er þungamiðjan, fór upp um 1,1%. Dow Jones vísitalan hækkaði um 204 punkta sem samsvarar 0,6% hækkun.
S&P 500 vísitalan hefur nú hækkað þrjár vikur í röð. Vísitalan hefur hækkað um 8,4% í mánuðinum og 18% á árinu.
Að mati The Wall Street Journal hefur gervigreindarskrum sem og von fjárfesta um að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé lokið hér áhrif.
Hlutabréf Nvidia hækkað um 252%
Hlutabréf í örflöguframleiðandanum Nvidia hækkuðu um 2,3% eftir að fyrirtækið birti árshlutauppgjör.
Örflögur Nvidia eru notaðar við þróun gervigreindar en gengishækkun Nvidia á árinu hefur átt stóran þátt í jákvæðri þróun S&P 500 vísitölunnar.
Hlutabréf í Nvidia hafa hækkað um 252% það sem af er ári.