Gervi­greindarskrum réð lofum og lögum á markaði í Banda­ríkjunum í gær eftir að Micros­oft greindi frá ráðningu Sam Alt­man, stofnanda og fyrrum for­stjóra OpenAI, í gær.

Satya Nadella, for­stjóri Micros­oft, til­kynnti að Alt­man og Greg Brock­man, annar með­stofnandi OpenAi, myndu ganga til liðs við Micros­oft til að hjálpa við þróun á gervi­greind innan fyrir­tækisins.

Gengi Micros­oft hækkaði um 2,1% og var dagsloka­gengið 377,4 banda­ríkja­dalir.

Dagslokagengi Micros­oft hefur aldrei verið hærra en markaðs­virði fyrir­tækisins er nú um 2800 milljarðar Banda­ríkja­dala, eða 390 þúsund milljarðar ís­lenskra króna.

Gengi tæknirisans hefur hækkað um 58% á árinu og má búast við frekari hækkunum þegar markaðir opna vestanhafs í dag.

S&P 500 hækkað um 18% á árinu

S&P 500 vísi­talan fór upp um 0,7% í gær á meðan Nas­daq Composite, þar sem tækni­fyrir­tækin í Banda­ríkjunum er þunga­miðjan, fór upp um 1,1%. Dow Jones vísi­talan hækkaði um 204 punkta sem sam­svarar 0,6% hækkun.

S&P 500 vísi­talan hefur nú hækkað þrjár vikur í röð. Vísi­talan hefur hækkað um 8,4% í mánuðinum og 18% á árinu.

Að mati The Wall Street Journal hefur gervi­greindarskrum sem og von fjár­festa um að vaxta­hækkunar­ferli Seðla­bankans sé lokið hér á­hrif.

Hlutabréf Nvidia hækkað um 252%

Hluta­bréf í ör­flögu­fram­leiðandanum Nvidia hækkuðu um 2,3% eftir að fyrir­tækið birti árs­hluta­upp­gjör.

Ör­flögur Nvidia eru notaðar við þróun gervi­greindar en gengis­hækkun Nvidia á árinu hefur átt stóran þátt í já­kvæðri þróun S&P 500 vísi­tölunnar.

Hluta­bréf í Nvidia hafa hækkað um 252% það sem af er ári.