Kosningar til sveitastjórna fóru fram í gær og lágu úrslit fyrir undir morgun. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í borginni með 24,5% atkvæða og sex borgarfulltrúa, sem er lakasti árangur flokksins í borginni frá upphafi, en flokkurinn fékk 25,9% fylgi árið 2014. Fylgi Sjálfstæðisflokksins var hins vegar um 8 prósentustigum hærra en nýjustu kannanir bentu til og mátti skilja af ræðu Hildar Björnsdóttur á kosningavöku flokksins að um ákveðinn varnarsigur hefði verið að ræða.

Meirihlutinn í Reykjavík er fallinn, en Samfylkingin fékk 20,3% atkvæði og 5 borgarfulltrúa, það er ein lakasta niðurstaða flokksins í borgarstjórnarkosningum frá upphafi. Líkt og Sjálfstæðisflokkurinn missti Samfylkingin tvo borgarfulltrúa frá því í síðustu kosningum. Viðreisn fékk 5,2% atkvæða og missti annan af tveimur borgarfulltrúum sínum en Píratar fengu 11,6% og bættu við sig þriðja borgarfulltrúanum. Vinstri græn fengu einungis 4% atkvæða en héldu sínum eina borgarfulltrúa. Meirihlutinn missti því tvo borgarfulltrúa.

Sósíalistar fengu 7,7% atkvæða og bættu við sig einum borgarfulltrúa. Það verður hins vegar ekki til þess að bjarga meirihlutanum en Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti flokksins, hefur gefið það út að hún geti ekki hugsað sér að starfa með Viðreisn. Flokkur fólksins fékk 4,5% atkvæða og einn borgarfulltrúa.

Framsóknarflokkurinn var hástökkvari kosninganna með 18,7% atkvæða og fjóra borgarfulltrúa. Á síðasta kjörtímabili hafði flokkurinn engan borgarfulltrúa en er nú í lykilstöðu þegar kemur að myndun meirihluta.

Miðflokkurinn, Reykjavík Besta Borgin og Ábyrg Framtíð náðu ekki inn manni.