Hollenska raftækjafyrirtækið Philips tilkynnti í morgun um að hann hefði fært niður tekjuspá sína fyrir yfirstandandi ár vegna minnkandi eftirspurnar í Kína.
Hlutabréfaverð félagsins féll um 16,9% í dag en það hefur ekki lækkað jafnmikið á einum degi frá því í september 1997, að því er segir í frétt Bloomberg. Engu að síður er gengi hlutabréfa félagsins 15% hærra en í upphafi árs.
Philips, sem sérhæfir sig í dag í heilbrigðistækni, tilkynnti í morgun um að félagið gerir nú ráð fyrir að sala samstæðunnar í ár muni aukast um allt að 1,5% á samanburðarhæfum grunni frá fyrra ári. Félagið hafði áður gert ráð fyrir að salan myndi aukast um allt að 5% milli ára.
Mótteknum pöntunum á þriðja ársfjórðungi fækkaði um 2% frá sama tímabili í fyrra, sem Philips rekur einkum til minni eftirspurnar frá spítölum og neytendum í Kína.
Í umfjöllun Bloomberg segir að Philips hafi liðið fyrir spillingarherferð innan kínverska heilbrigðisgeirans. Stjórnvöld í Kína hafa innleitt strangar kröfur um innlenda framleiðslu fyrir heilbrigðitæknivörur í mörgum vöruflokkum.
Forstjóri Philips gerir ráð fyrir áframhaldandi óvissu í Kína á næstu fjórðungum.