Ráðgjafarfyrirtækið Capacent metur gengi bréfa HB Granda á 24,9 krónur á hlut samkvæmt verðmati sem dagsett er 3. ágúst. Er félagið því metið á samtals 45,3 milljarða króna. Er það um 27% lægra verð en sem nemur markaðsvirði bréfanna sem stóð í 34 krónum á hlut við lokun markaða í gær. Capacent lækkar verðmat sitt örlítið frá fyrra mati eða um 0,5 krónur á hlut. Þann 18. apríl síðastliðinn keypti Brim hf. rúmlega 34% hlut í HB Granda á 35 krónur á hlut. Í kjölfarið settist Guðmundur Kristjánsson stærsti eigandi Brims í forstjórastólinn hjá félaginu. Daginn eftir að tilkynnt var um kaup Brims hækkaði hlutabréfaverð HB Granda um rúm 13% en hefur  lítið sem ekkert hreyfst síðan.

Í matinu kemur fram að afkoma fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi 2018 hafi verið undir væntingum. Uppgjörið hafi litast af erfiðum rekstraraðstæðum, sterkri krónu, hækkandi olíuverði og yfirspennu á innlendum vinnumarkaði. Hagnaður á fyrsta ársfjórðungi nam 3,2 milljónum evra var 3,7 milljónir á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir að tekjur hafi aukist úr 42 milljónum evra í 50 milljónir dróst rekstrarhagnaður (EBIT) einnig saman um 0,9 milljónir evra milli ára og nam 4 milljónum á tímabilinu. Eru ástæður lægri hagnaðar raktar til lægri framlegðar og aukins kostnaðar. Þá hafi fyrsti ársfjórðungur 2017 verið óvenju lakur auk þess sem sjómannaverkfall var stóran hluta fjórðungsins sem sé ekki til þess að bæta samanburðin.

Að mati greinanda Capacent er hlutabréfaverð fyrirtækisins of hátt fyrir hinn almenna fjárfesti eða hlutlausa minnihlutaeigendur. Erfitt sé að sjá markaðsgengi félagsins hækka mikið eftir að Brim eignaðist rúmlega þriðjungs hlut í félaginu. Það væri helst barátta um yfirráð í fyrirtækinu eða skörp veiking íslensku krónunnar sem gæti hækkað verðmæti félagsins.

Horfur hafa verið betri

Capacent lækkar einnig rekstaráætlun milli verðmata. Gerir ráðgjafafyrirtækið ráð fyrir því EBIT muni nema 32,5 milljónum evra á árinu 2018.  Þá kemur einnig fram að þar sem ekki var verkfall á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hafi aflaheimildastaða botnfisks verið rúmlega fimmþúsund tonnum lægri í lok fyrsta ársfjórðungs. Það gefi ekki ástæðu til bjartsýni þar sem meirihluti tekna HB Granda kemur frá botnfiskveiði. Horfurnar séu þó betri á uppsjávarsvið þar sem aflaheimildastaða var 91 þúsund tonn í lok mars en var 85 þúsund tonn á sama tíma árið áður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .