Eimskipafélag Íslands, sem hefur átt í deilum við skattayfirvöld hér á landi , kveðst ósammála niðurstöðu yfirskattanefndar sem nýlega hafnaði kröfum félagsins. Nú ætli félagið sér að meta stöðu sína varðandi þennan úrskurð. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu .

Félagið skaut ákvörðun skattayfirvalda um að félaginu beri að greiða tekjuskatt af hagnaði skipa sem skráð eru erlendis, til yfirskattanefndar. Í lok árs 2017 komst skattstjóri að þeirri niðurstöðu að félaginu bæri að greiða 0,2 milljónir evra sem samsvarar um rúmlega 26 milljónum króna í skatt vegna hagnaðar af skipum félagins á árunum 2013 og 2014.

Ef Eimskip tapa málinu mun félagið einnig þurfa að gjaldfæra 3,4 milljónir evra í skattgreiðslur vegna hagnaðar af skipunum. Félagið mun þó aðeins þurfa að greiða um hálfa milljón evra þar sem það á inni skattalegt tap sem mun koma til lækkunar á gjaldfærðum skatti.

Fréttatilkynningu Eimskips má sjá í heild sinni hér að neðan:

Í desember 2017 úrskurðaði Ríkisskattstjóri að Eimskipafélag Íslands hf. skyldi greiða skatta af starfsemi í erlendum dótturfélögum, sbr. skýringu 24 í ársreikningi félagsins fyrir árið 2018. Félagið kærði úrskurð Ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar og í dag barst úrskurður nefndarinnar í málinu en samkvæmt honum er kröfum félagsins hafnað.

Með vísan til áður birtra upplýsinga eru áætluð áhrif til gjaldfærslu skatta í rekstrarreikningi fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2019 3,4 milljónir evra, en að teknu tilliti til nýtingar á yfirfæranlegu tapi eru greiðsluáhrif áætluð 500 þúsund evrur.

Eimskip, sem rekstraraðili kaupskipa í alþjóðlegri samkeppni, er ósammála þessari niðurstöðu yfirskattanefndar og mun í framhaldinu meta stöðu sína varðandi þennan úrskurð.