Heildarhagnaður álveranna þriggja hérlendis nam 46 milljörðum króna á árinu 2021 og var það metár. Það stefnir allt í að árið 2022 verði annað metár, miðað við uppgjör hjá Norðurál Grundartanga og ISAL fyrir árið 2022. Methagnaður álveranna á árunum 2021-2022 skýrist einkum af sögulega háu heimsmarkaðsverði á áli.

Hagnaður Norðuráls nam 219 milljónum dala á síðasta ári, eða sem nemur um 30 milljörðum króna miðað við gengið í lok árs 2022. Til samanburðar hagnaðist álverið um 10,1 milljarð árið áður, og er því um að ræða þrefaldan hagnað á milli ára. Velta Norðuráls jókst um rúmlega 40 milljarða króna á milli ára og nam 142,5 milljörðum króna í fyrra.

Spurður út í horfurnar næstu árin segir Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls, alltaf erfitt að sjá fyrir hvað verður í framtíðinni. „Sú áskorun sem við stöndum frammi fyrir núna eru áhrif verðbólgunnar sem setur þrýsting á kostnaðarhækkanir á öllum aðföngum.“

Mesti hagnaður í sögu félagsins

Reksturinn hjá ISAL (Rio Tinto á Íslandi) gekk einnig vel á nýliðnu ári og var hagnaður fyrir skatta sá mesti í sögu félagsins. Alls var hagnaður fyrir skatta 161,6 milljónir dala eða sem svarar um 21,8 milljarði króna. Tekjur ISAL voru líka þær hæstu frá upphafi eða 873,9 milljónir dollara og jukust um 23,6% frá árinu á undan.

Rannveig Rist, forstjóri ISAL, segir sveiflukennt ár að baki. Innrás Rússa í Úkraínu hafi haft mikil og slæm áhrif á álmarkaði og á efnahagslífið almennt.

„Álverð lækkaði verulega í kjölfar árásarinnar og orkuverð hækkaði víða mikið í Evrópu sem olli hækkandi verðbólgu og vöxtum. Sú óvissa sem skapaðist vegna þessa er viðvarandi og margir álframleiðendur í Evrópu hafa lent í erfiðleikum. Vegna þessa hefur framleiðsla á meginlandi Evrópu dregist saman um 50% á síðastliðnum tveimur árum. Staða ISAL er samt sem áður góð og langtímahorfur á álmörkuðum eru almennt góðar.“

Nánar er fjallað um álverin í Viðskiptablaðinu sem kom út föstudaginn 26. maí.