Rautt var yfir nýloknum viðskiptadegi í Kauphöll Nasdaq á Íslandi og lækkaði gengi 15 félaga af þeim 19 sem skráð eru á Aðalmarkað. Fyrir vikið lækkaði OMXI10 úrvalsvísitalan um 1,61% og stendur nú í 2.455,39 stigum. Mikið líf var yfir viðskiptum dagsins og nam heildarvelta viðskipta dagsins 6,4 milljörðum króna.

Gengi hlutabréfa Icelandair Group lækkuðu mest í viðskiptum dagsins eða um 5,88% í 237 milljóna króna veltu. Fast á hæla Icelandair fylgdi fasteignafélagið Reginn en gengi bréfa þess lækkuðu um 5,44% í 58 milljóna króna veltu.

Gengi þriggja félaga hækkaði í dag en í öllum tilfellum var hækkunin innan við 1%. Gengi hlutabréfa tryggingafélagsins TM hækkaði mest í viðskiptum dagsins eða um 0,84% í 26 milljóna króna viðskiptum. Gengi Eimskips hækkaði næst mest eða um 0,64% í 835 milljóna króna veltu. Var jafnframt mest velta með bréf Eimskips.