Austurljós, félag sem sérhæfir sig í lagningu og tengingu ljósleiðara ásamt því að selja áskriftarleiðir í nettengingum og farsímasamskiptum, hagnaðist um 15 milljónir króna á síðasta ári. Árið áður var félagið rekið með 2 milljóna tapi.

Rekstrartekjur námu 44 milljónum og jukust um 3 milljónir frá árinu 2022. Rekstrargjöld námu 24 milljónum og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam því 20 milljónum.

Eignir námu 75 milljónum í lok síðasta árs, skammtímaskuldir 52 milljónum og eigið fé 23 milljónum. Tæknibúnaður og lagnir félagsins voru metin á 67 milljónir í bókum þess í lok síðasta árs en ári áður voru búnaður og lagnir metnar á 50 milljónir.

Í viðtali Austurfrétta við eigandann, Stefán Sigurðsson, frá því í nóvember á síðasta ári kom fram að félagið hafi til þessa lagt áherslu á Fljótsdalshérað en einnig verið í framkvæmdum á Seyðisfirði. Þá horfði félagið einnig til Djúpavogs og Fjarðabyggðar.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.