Menntatæknifyrirtækið Mussila, sem var stofnað á Íslandi árið 2015, hyggst sækja 150 milljónir króna í fjármögnun til að auka vöruúrval og efla vöxt. Fjármögnunin fer fram á Funderbeam, alþjóðlegum viðskipta- og fjármögnunarvettvangi fyrir einkafyrirtæki.

Á vefsíðu Funderbeam kemur fram að alls hafa borist tilboð að andvirði 338 þúsund evra. Fjármögnunarlotan stendur í þrettán daga en Mussila ætlar að sækja minnst 600 þúsund evra. Fram kemur að helmingur fjármagnsins fari í markaðsstarf til að styðja við tekjuvöxt, þriðjungur fer í þróun á nýjum vörum og 17% verður varið í ráðningar.

„Fram til þessa hefur fjármagnið aðallega komið úr Tækniþróunarsjóði og frá innlendum fjárfestum. Nú höfum við þróað fræðsluapp í tölvuleikjastíl með áskriftarmódeli og fjöldaaðgangsstýringu fyrir kennara og fjölskyldur. Þannig er hægt að nota appið í fjarkennslu og hafa þægilega yfirsýn. Við sjáum tækifæri til þess í náinni framtíð að nýta tækniþekkingu okkar til þess að búa til nýjar menntatæknivörur,“ er haft eftir Jóni Gunnari Þórðarsyni, framkvæmdastjóra Mussila, í fréttatilkynningu.

Tónlistarforrit Mussila er komið á heimsmarkað á 32 tungumálum. Um 20 þúsund notendur hala appinu niður í hverjum mánuði en fjöldi mánaðarlegra áskrifta fjórfaldaðist árið 2020 og tekjurnar af sölu appsins sjöfölduðust. Í Kína er tónlistarappið til sölu á menntatæknivettvangnum DonDonLong, sem er haldið úti af einu stærsta tölvuleikjafyrirtæki í heimi, NetEase.

„Árið 2020 tókst okkur að fjölga mánaðarlegum áskrifendum töluvert og hófum beina sölu til skóla víða um heim. Í ljósi þessa teljum við að varan sé tilbúin í skalanlegan vöxt, studdan af hnitmiðuðum markaðsherferðum í Norður-Ameríku og Evrópu,“ segir Jón Gunnar.

Iceland Venture Studio (IVS) mun leiða fjármögnunina fyrir Mussila. Bala Kamallakharan, stofnandi IVS sér næsta áratuginn fyrir sér sem tímabil þar sem skólar munu tæknivæðast.

„Aðferð Mussila er frábær og gerir öllum kleift að stunda tónlistarnám hvaðan sem er í heiminum. Því ætlum við að hraða á útbreiðslu vörunnar. Sjálfsnám hefur verið að ná sífellt meiri útbreiðslu í rúman áratug, og skólar eru loksins að kveikja á þessu trendi,“ er haft eftir Bala Kamallakharan.

Funderbeam, stofnað árið 2013, þjónar fjárfestum frá 128 löndum og fyrirtækjum allt frá Evrópu austur til Asíu. Vettvangurinn hefur til dagsins í dag haft milligöngu um meira en 12 milljóna evra fjárfestingar og í hverjum mánuði eiga sér þar stað viðskipti upp á meira en 2 milljónir evra. Funderbeam býður upp á sjálfvirka pörun fyrirtækja og fjárfesta, þannig að kaupendur og seljendur geta átt viðskipti allan sólarhringinn árið um kring, án þess að nokkra milligöngumenn þurfi.

Kynningarmyndband Mussila á Funderbeam vettvangnum má sjá hér að neðan.

Mussila hefur hlotið fjölda verðlauna. Árið 2019 hlaut Mussila Norrænu menntatækniverðlaunin, Parent´s Choice-verðlaunin og Comenius EduMedia-verðlaunin. Árið 2020 nefndi Education Technology Insight Mussila sem einn af tíu fremstu menntatæknisprotum í Evrópu og fyrirtækið hlaut auk þess Academic Choice-verðlaunin. Þá fékk Mussila nýlega Mom´s Choice-verðlaunin.